„Á Austurlandi á að vera gott að búa“

Samband sveitarfélaga á Austurlandi stendur í dag fyrir íbúafundi um endurskoðun sóknaráætlunar Austurlands. Verkefnastjóri SSA segir sóknaráætlunina grundvöll að aðgerðum ríkisins í fjórðungnum.


Fundurinn er hluti af endurskoðun byggðaáætlunar en sú sem unnið er eftir nú gildir til ársins 2017. Lögð er áhersla á dreifbýli, úrbætur í fjarskiptum, orkuflutning og afhendingaröryggi, brothætt byggðarlög og samgöngur og stækkun þjónustu- og vinnusóknarsvæða.

Þá er áhersla á stuðning við einstaklinga, fyrirtæki og nýsköpun og vaxtargreinar, skilvirkt stoðkerfi atvinnuþróunar, dreifingu opinberra starfa og stefnumótun um opinbera þjónustu.

Byggðaáætlunin byggir á sóknaráætlun hvers og eins landshluta þar sem reynt er að forgangsraða verkefnum á hverju svæði. Hver sóknaráætlun gildir til fimm ára í senn.

„Sóknaráætlanir landshluta hafa alla burði til að virka og verða landshlutunum til heilla, að því gefnu að hið opinbera standi við þau fyrirheit sem gefin voru í upphafi verkefnis um fjármuni sem geta skipt sköpum í uppbyggingu landshlutanna,“ segir Björg Björnsdóttir, verkefnastjóri sveitarmála.

„Við verðum að treysta því að þeir sem eru við stjórnvölinn hverju sinni hafi sömu trú og þeir sem hér eru á getu landshlutanna til að lifa, vaxa og dafna. Brýnt er að fjármunir hins opinbera fylgi þeim opinberu farvegum sem komið hefur verið á laggirnar af miklum krafti og fagmennsku þannig að tiltrú á þeim meðal kjörinna fulltrúa og almennings á landsbyggðinni haldist sterk.“

Hún segir sóknaráætlunina grundvöll að framtíðarsýn þeirra sem búi á Austurlandi. „Hún byggir á því að á Austurlandi sé fyrirmyndarsamfélag þar sem atvinnu- og menningarlíf er kröftugt og fjölbreytt. Til staðar sé öflugt velferðarkerfi sem einkennist af samstöðu, trausti og sterku tengslaneti innan og utan landshlutans. Á Austurlandi á að vera gott að búa og jafnvægi milli atvinnu og einkalífs í hávegum haft.“

Uppbyggingarsjóður Austurlands, sem úthlutað var úr í janúar, er einn af hornsteinum sóknaráætlunarinnar. Björg segir mikla ásókn í sjóðinn merki um kraft og frumkvæði heimamanna.

„Þær eru til marks um það að hér vill fólk búa, hér vill það skapa sér atvinnu og hér vill það tryggja að mannlíf sé blómlegt og ríkulegt þannig að börn þeirra vilji og geti búið hér áfram, til frambúðar.

Einstaklingarnir sem sækja um í sjóðinn eru ekki síður fulltrúar fyrir óteljandi vinnustundir, ekki bara þeirra, heldur fjölda fólks sem á það sameiginlegt að hafa óbilandi trú á verkefnum sínum og ekki síður á Austurlandi.“

Fundurinn verður í Valaskjálf á Egilsstöðum frá 17-20 í dag.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.