Viðræður um sölu hlutar Fjarðabyggðar í Sparisjóði Norðfjarðar þokast í rétta átt

neskForsvarsmenn Sparifélagsins eiga í viðræðum við fulltrúa Fjarðabyggðar um að félagið kaupi hlut sveitarfélagsins í Sparisjóði Norðfjarðar. Talsmenn verjast allra frétta en segja viðræðurnar þokast í rétta átt.

„Þessar viðræður um eignarhlutann eru í gangi og þokast áfram í rétta átt. Það er ekki hægt að segja neitt meira um það á þessum tímapunkti," sagði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku.

Viðræðurnar hófust í sumar við Sparifélagið. Það hefur frá því fyrir hrun leitast eftir að stofna viðskiptabanka undir nafninu Sparibankinn.

„Því miður get ég ekkert nýtt sagt þér á þessar stundu," sagði Ingólfur H. Ingólfsson, formaður félagsins í svari við fyrirspurn Austurfréttar um stöðu viðræðnanna um helgina.

Í viðtali við Fréttablaðið í lok júlí sagði hann að félagið horfði ekki bara á Sparisjóð Norðfjarðar heldur fleiri sparisjóði sem ríkið á hluta í.

Haustið 2011 var ákveðið að selja Sparisjóðinn en hætt við þar sem ekki fékkst viðunandi tilboð í hann. Í kjölfarið var hagrætt í rekstri sjóðsins með lokun útibús hans á Reyðarfirði.

Stofnfé sjóðsins er 626 milljónir króna. Ríkið á 49,5% í sjóðnum, Fjarðabyggð 22,4% og rúmlega 80 aðrir hluthafar afganginn. Enginn þeirra á meira en 10%.

Sjóðurinn skilaði 19 milljóna hagnaði í fyrra og á fyrstu sex mánuði ársins var það 9,1 milljón. Bókfært eigið fé sjóðsins eru rúmar 606 milljónir króna.

Í ársreikningi sjóðsins fyrir árið 2012 er bent á að rekstrarumhverfið sé „um margt óhagstætt smáum fjármálafyrirtækjunum." Kostnaður við rekstur minni sparisjóða hafi aukist eftir fall stóru sjóðanna því þá hvarf það hagræði sem var af margvíslegu samstarfi milli sjóðanna.

Einnig er bent á hækkun sérstaks fjársýsluskatts á laun hjá fjármálafyrirtækjum, skatt af skuldum og „há framlög" í Innistöðutryggingasjóð eru sögð „íþyngjandi."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.