„Það liggur sextán ára fangelsi við svona broti og ég sé enga ástæðu til að færa þá refsingu neitt niður“

manndrap domari 07052013Saksóknari krefst þess að Friðrik Brynjar Friðriksson yrði dæmdur í sextán ára fangelsi en hann er ákærður fyrir að hafa ráðið Karli Jónssyni bana með hníf í íbúð Karls á Egilsstöðum í byrjun maí. Verjandi benti á sá möguleiki að annar aðili hefði getað framið verknaðinn hefði ekki enn verið afsannaður.

„Það liggur sextán ára fangelsi við broti af þessu tagi og ég held að það sé engin ástæða til að færa þá refsingu eitthvað niður,“ sagði Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari, við lok aðalmeðferðar málsins í héraðsdómi í gærkvöldi.

Hún ítrekaði að við ákvörðun refsingarinnar bæri að horfa til þess að um „svakalega ofsafengna árás“ hefði að ræða „gegn nánast algjörlega ókunnugum manni.“

Kolbrún benti á að Friðrik Brynjar hefði verið reikull í framburði og saga hans breyst í takti við það sem komið hefði fram við rannsókn málsins á hverjum tíma. Lögreglan hefði tekið ásakanir Friðriks um barnagirnd Karls alvarlega og rannsakað hana ítarlega en einskis orðið vör.

Guðrún Sesselja Arnardóttir, verjandi Friðriks Brynjars, viðurkenndi að skjólstæðingur hennar hefði verið reikull í framburði. Hann hefði þó aldrei minnst á hníf þótt hann kannaðist við að hafa ráðist á Karl.

Stórum hluta lokaorða sinna varði hún í að ræða blóðferlarannsóknina og ótrúlegt væri að ekki fyndist meira blóð á þeim fötum sem Friðrik Brynjar var í aðfaranótt 7. maí miðað við hversu ofsafengin árásin var.

Hún gagnrýndi að upplýsingar frá lögreglu hefðu lekið í fjölmiðla og hélt því fram að Jónas Wilhelmsson, lögreglustjóri á Eskifirði, hefði rætt við Friðrik Brynjar á lögreglustöðinni á Egilsstöðum eftir handtökuna þann 7. maí, sagt honum að hluta frá aðstæðum að vettvangi og að lögreglan teldi sig hafa réttan mann í haldi. Þetta gæti að einhverju leyti skýrt af hverju Friðrik Brynjar hafi farið að búa sér til minningar.

Jónas neitaði þessum fullyrðingum sem Friðrik Brynjar setti fram sjálfur í fyrri hluta aðalmeðferðar málsins.

Guðrún Sesselja sagði að ekki hefði enn verið afsannað að annar einstaklingur en ákærði hefði framið morðið og Friðrik Brynjar komið að Karli liggjandi við svalirnar eins og hann hefur haldið fram.

„Auðvitað er þetta ekki líklegt, þetta er ekki sennilegt – þetta er frekar ótrúlegt – en er þetta ómögulegt? Raunveruleikinn er stundum ótrúlegri en nokkur skáldskapur.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.