Sigmundur Davíð: Þurfum að komast upp úr orðræðunni um landsbyggðina gegn höfuðborginni

sigmundur david feb13Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, vill að íbúar höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar hætti að skipta sér í tvær andstæðar fylkingar í þjóðmálaumræðunni. Samvinna þjóni betur Íslendinga í heild.

„Margt hefur breyst á síðastliðnum 20 árum. Það er þó eitt grunnstef í umræðunni varðandi lífskjör og tækifæri á Íslandi sem virðist lítið breytast, illu heilli. Þ.e. landsbyggðin „versus“ höfuðborgarsvæðið. Það er grunnstefið sem litað hefur stóran hluta stjórnmálaumræðu síðustu aldar og klofið þjóðina of oft bæði í hugsun og orði í „við“ og „þið“, sagði Sigmundur í opnunarávarpi sínu á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um síðustu helgi.

„Ég sé tækifæri í samvinnu en ekki aðskilnaði. Við verðum að komast upp úr þeirri tvípóla orðræðu sem einkennt hefur okkur svo lengi. Vissulega eru sjónarmið á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu oft grundvölluð á ólíkum hagsmunum og/eða ólíkri upplifun á veruleikanum. En við bara komumst svo miklu betur áfram ef við byrjum á því að skilgreina sameiginlega hagsmuni okkar og sameiginlegan veruleika.

Við erum ein þjóð í einu landi sem við höfum í gegnum tíðina skipt niður í landshluta, sýslur, sveitarfélög, hreppa og hverfi. Það er í eðli mannsins að greina sig frá öðrum, það er einnig í eðli mannsins að vinna saman að hagsmunum heildar. Þann hluta manneðlisins þurfum við að virkja til hins ítrasta í þágu samfélagsins alls.“

Sigmundur hrósaði Austfirðingum fyrir að hafa í gegnum árið verið í fararbroddi í samvinnu innan landshlutans og nefndi að SSA ætti rætur sínar að rekja til Fjórðungsþings Austfirðinga árið 1943.

„Frumkvöðlar fjórðungsþingsins, þeir Gunnlaugur Jónasson og Hjálmar Vilhjálmsson töldu að „byggðaröskunin“ í landinu væri komin á hættulegt stig og að íbúum á Austurlandi hefði ekkert fjölgað áratugum saman og áberandi væri að ungt fólk flyttist búferlum til höfuðborgarsvæðisins.“

Nú síðast hefðu sveitarfélög, aðrir opinberir aðilar, félagasamtök og fleiri tekið höndum saman um rekstur allra stoðstofnanna undir merkjum Austurbrúar. Þar hefðu Austfirðingar gengið lengra en aðrir. Ágætlega hefði tekist til þótt ýmsir byrjunarörðugleikar hefðu komið upp.

Enn á ný er Austurland frumkvöðull í breyttri stjórnskipan og útfærslu nýrra leiða er kemur að samvinnu sveitarfélaga. Með Austurbrú er kominn vettvangur fyrir sameiginlega stefnumótun og bein samskipti og samstarf landshluta við ríkisvaldið. Samstarf sem gæti leitt af sér aukin tilflutning verkefna og aukið frumkvæði og sjálfræði. Aukið val og vald til þess að stýra eigin byggðamálum.

Það að öll átta sveitarfélög landshlutans auk 24 ríkisstofnana og frjálsra félagasamtaka taki sig saman um rekstur sameiginlegrar stoðstofnunar fyrir landshlutann sýnir sérstaklega góða blöndu: framtakssemi, félagsþroska og skynsemi. Það liggja einnig fjölmörg tækifæri í því að setja á einn stað þjónustu tengda byggða- og atvinnuþróun, menntun, rannsóknum, menningu og málefnum ferðaþjónustunnar.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.