Ekki hægt að fullmanna lögregluna í sumar vegna ónógra fjárveitinga

logregla syslumadursey heradsdomuraustEkki var hægt að uppfylla mannaflaþörf hjá lögreglunni í umdæmi lögreglustjórans á Seyðisfirði í sumar svo vel væri vegna ónógra fjárveitinga. Sýslumaður segir ráðherra og þingmenn sýna stöðunni ágætan skilning. Öryggi borgaranna hafi ekki verið stefnt í voða vegna fámenni í lögreglunni.

„Embættið hefur ekki getað mannað stöður í sumar sem vert væri og stafar það af ónógum fjárveitingum svo sem við á um flestar ríkisstofnanir nú um stundir,“ segir Lárus Bjarnason, sýslumaður í umdæminu.

Lögreglumál svæðisins hafa verið til umfjöllunar að undanförnu, meðal annars eftir að maður réðist inn á heimili lögreglukonu sem var fjarverandi þar sem hún var á vakt og hótaði heimilisfólki. Á þeim tímapunkti var hún eini lögregluþjónninn á vakt í umdæminu. Þá hefur gengið illa að hafa hendur í hári brennuvargs sem virðist ganga laus á Egilsstöðum.

Í svari við fyrirspurnum Austurfréttar sagði Lárus að almennt væri „ekki um það að ræða að aðeins sé einn maður á vakt í umdæminu.“ Vakt er annars vegar á Egilsstöðum og eru þar vanalega tveir menn sem einnig sjá um löggæslu á Seyðisfirði og hins vegar á Vopnafirði þar sem einn er á vakt.

Vaktirnar eru enn fremur mannaðar eftir álagi en bætt er við mönnum um helgar og þegar Norræna kemur að landi eða við önnur slík verkefni. Þá eru kallaðir til svonefndir héraðslögreglumenn til viðbótar við almenna lögreglumenn. Við embættið á Seyðisfirði starfa nú fimm héraðslögreglumenn en heimild er til að ráða allt að átta.

Fyrr í vor greindi Austurfrétt frá því að þrjá lögreglumenn vantaði upp á fulla mönnun í umdæminu. Jafnframt að fjárhagur embættisins hefði þrengst verulega síðustu ár einkum sé litið til þess tíma þegar stóriðjuframkvæmdir stóðu yfir og verkefnin voru sem flest.

„Embættin fá fjármuni á fjárlögum og haga sínum afleysingum í samræmi við fjárframlög. Embættið gerir rekstraráætlun á grundvelli fjárveitinga og forgangsraðar þar eftir þörfum.

Sparnaðarmöguleikar embætta lögreglustjóra hin seinni árin hafa einkum verið fólgnir í því að draga saman aukavinnu lögreglumanna, spara akstur og að ráða ekki í stöður sem losna. Hér við embættið hefur verið sparað á öllum sviðum seinni árin og reynt að halda rekstrinum innan fjárheimilda. Má því segja að gripið hafi verið til blöndu af mögulegum sparnaðarúrræðum hjá embættinu í heild.“

Lárus segir að leitað hafi verið til innanríkisráðuneytisins og þingmanna vegna fjárhagsvandans og fengið „ágætan skilning.“ Embættið hafi til dæmis fengið nokkuð umfram önnur lögregluembætti við aukafjárveitingu í fyrra og vilyrði fyrir að litið yrði til fjárhagsvanda þess í ár.

„Eftir sem áður er embættið í nokkrum rekstrarhalla og það þrátt fyrir þann niðurskurð sem þegar hefur verið gripið til.“

Aðspurður segir Lárus að öryggi borgara í umdæminu eigi ekki að vera í hættu þrátt fyrir mannfæð í lögreglunni. „Embættið veit ekki dæmi þess að öryggi borgaranna hafi verið stefnt í voða vegna fámennis í lögreglunni. Gera þyrfti úttekt á almennri löggæsluþörf á landsvísu.“
 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.