Erlendir ferðamenn eyða þrjátíu milljörðum í mat á ferðum sínum um Ísland

matvaeladagur dso webUm þriðjungur þess fjár sem erlendir ferðamenn eyða í Íslandsferðum sínum fer í mat. Vaxandi áhugi er fyrir mat úr heimahéraði. Þrjú austfirsk veitingahús bjóða upp á matseðla þar sem fyrst og fremst er notað austfirskt hráefni.

Þetta var meðal þess sem fram kom á austfirska matvæladeginum sem haldinn var á Hótel Héraði í dag.

Dagurinn var haldinn að frumkvæði Austfirskra krása en þar buðu framleiðendur sem tengjast matvælaklasanum gestum upp á að smakka vörur sínar, til dæmis sultur, lífrænar vöfflur, kjöt, harðfisk, eftirrétti, sveppasúpu og fetaost.

Áhugi á matvælum úr héraði hefur aukist síðustu ár. Ferðalangar sækjast eftir „matarupplifun“ hvar sem þeir koma og hún verður sífellt mikilvægari þáttur í ferðaþjónustu.

„Á Íslandi hefur ekki enn byggst upp nógu mikil matarmenning í dreifbýlinu. Við erum þó að sækja í okkur veðrið og eigum fullt inni,“ sagði Tinna Björk Arnardóttir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þrjú austfirsk veitingahús: Gistihúsið á Egilsstöðum, Hótel Hérað og Hótel Aldan á Seyðisfirði hafa tekið upp línur þar sem fyrst og fremst er notað austfirskt hráefni í gerð ákveðinna rétta.

„Þriðjungur þess sem erlendir ferðamenn eyða hérlendis fer í mat. Heildareyðsla þeirra er um 100 milljarðar þannig að þeir eyða um 30 milljörðum króna í mat.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar