Lítur þingmaðurinn ekki á flugvöllinn sem hluta af samfélaginu í landinu?

flug flugfelagislands egsflugvÞingmaður Bjartar framtíðar telur að Reykjavíkurborg geti ekki rekið sig á hagkvæman hátt nema með þéttingu byggðar þar sem flugvöllurinn er staðsettur í dag. Þingmaður Norðausturkjördæmis segir mikið líf í kringum völlinn.

Þetta kom fram í sérstakri umræðu um flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni á Alþingi í síðustu viku þar sem málshefjandi var Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar úr Reykjavíkurkjördæmi norður.

Hún hóf umræðuna á að spyrja forsætisráðherra hvort hann hygðist beita sér fyrir því að taka flugvallarsvæðið og byggingar því tengdu eignarnámi og friðlýsa með nýju frumvarpi sem heimilar ráðherra í inngrip skipulagsvalds sveitarfélaga til að vernda tilteknar minjar í byggð.

Hún spurði hvort forætisráðherra væri þar að búa sér til svigrúm til að taka geðþóttaákvarðanir í skipulagsmálum og hvort til stæði að nota frumvarpið til að „leggja enn einn stein í götu þeirra sem vilja reisa þar [í Vatnsmýrinni] 20 þús. manna byggð í samræmi við samþykkt aðalskipulag Reykjavíkur í ekki svo fjarlægri framtíð?"

Mikið líf í kringum völlinn

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, var meðal þeirra sem tók þátt í umræðunni og undraðist tengingarnar í fyrirspurn Heiðu Kristínar.

„Ég velti fyrir mér hvort það sé virkilega þannig að hæstvirtur þingmaður líti á umferð dagsins í dag um Reykjavíkurflugvöll sem menningarminjar en ekki hluta af samfélaginu sem nú er virkt í landinu.

Ég fer um flugvöllinn nokkrum sinnum í viku og sé ekki annað en að umferðin um hann sé einmitt býsna mikill mælikvarði á atvinnuástand og atvinnulíf í landinu og að þar megi sjá fólk á ferðinni til að nota og kaupa þjónustu hjá stofnunum og fyrirtækjum í höfuðborginni."

Borgin þarf vallarsvæðið

Heiða Kristín lýsti enn fremur þeirri skoðun sinni að það væri mikilvægt hagsmunamál fyrir borgina að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni.

„Reykjavíkurborg ber skylda til að reka sig með hagkvæmum hætti og borgin getur ekki rekið sig með hagkvæmum hætti nema hún fái tækifæri til að þétta byggðina þannig að til dæmis sé hægt að reka almenningssamgöngur með hagkvæmum hætti og að fólkið sem býr í borginni geti rekið sig með hagkvæmum hætti og til dæmis freistað þess að nýta ekki einkabílinn öllum stundum í allt þó að hann sé ágætur.

Mig langar að spyrja hæstvirtan forsætisráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að Reykjavíkurborg þróist. Hvernig sér hann fyrir sér þróun byggðar hér ef hún á ekki að verða samkvæmt samþykkt aðalskipulags fyrir svæðið þar sem flugvöllurinn er nú?"

Ekki hugkvæmst að friðlýsa völlinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, sagðist ekki telja möguleika á að friðlýsa flugvöllinn á þann hátt sem Heiða Kristín velti upp en þakkaði fyrir ábendinguna.

„Maður ætti kannski að velta því fyrir sér að vissulega er Reykjavíkurflugvöllur stríðsminjar frá tíð seinni heimsstyrjaldarinnar. Hæst þingmaður skýtur hér að mér hugmynd um hvort ástæða kunni að vera til að vernda þær stríðsminjar."

Að auki væri óþarfi að taka flugvöllinn eignarnámi þar sem stór hluti landsins væri þegar í eigu ríkisins.

Græðgisvæðing í borgarskipulagi

Hann sagðist hins vegar sannarlega ekki sammála skipulagsstefnu Reykjavíkurborgar.„Menn hafa mikið notað orðið græðgisvæðing í íslenskri þjóðmálaumræðu um aðdraganda efnahagshrunsins.

Ég veit ekki hvað er hægt að kalla það annað en græðgisvæðingu þegar borgaryfirvöld í Reykjavík reka stefnu sem beinlínis ýtir undir þenslu í mjög afmörkuðum hluta borgarinnar, miðsvæðis, ýtir undir það að hið gamla og smáa víki og að í staðinn komi sem flestir og ódýrastir fermetrar þar sem loftið gengur kaupum og sölum fram og til baka og stöðugt er lagt ofan á það hærra og hærra gjald og vonast eftir fleiri og fleiri fermetrum þannig að á endanum er borgin í rauninni að útdeila gríðarlegum verðmætum til þeirra sem eru reiðubúnir að ganga mest á byggðina sem fyrir er. Það er stefna sem ég mun ekki ganga í takt við."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.