Jón Björn: Sit ekki á kvöldin og kokka upp samsæri til að hjálpa ættingjum

jon bjorn hakonarson stfj mai14Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, hafnar því að hann sé vanhæfur í umræðum um málefni Egilsbúðar þótt hann tengist öðrum rekstraraðilum í bænum fjölskylduböndum.

„Ég skil tilfinningaríka umræðu um félagsheimilin og tek því að fólk sé ekki sammála mér. Dapurlegast er hins vegar að heyra að ég sé að ganga erinda fjölskyldumeðlima minna í rekstri," sagði Jón Björn í umræðum um Egilsbúð á fundi bæjarstjórnar í dag.

Samningur um útleigu Egilsbúðar til veitingarekstrar rennur út um áramót og ekki er heimild til að framlengja hann. Hann var upphaflega boðin út til fimm ára.

Bæjarráð og bæjarstjóri vinna nú málið áfram. Meðal annars er skoðað hvort það standist samkeppnislög að húsnæði að fullu í eigu og umsjá sveitarfélagsins sé boðið út til veitingareksturs.

Norðfirðingar hafa áhyggjur af framtíð hússins verði ekki í því veitingarekstur. Sumir hafa gefið í skyn að Jón Björn sé að ganga ættingja sinna sem selja veitingar og gistingar undir merkjum Hildebrand hótela í næsta húsi við félagsheimilið.

„Ef það gleður litlar sálir að halda því fram að ég sitji á kvöldin og kokki upp samsæri til að koma mínum ættingjum lengra þá verður svo að vera. Ég læt það ekki hafa áhrif á mig," sagði Jón Björn í dag.

Hann segist hafa kappkostað að vinna heiðarlega með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. „Þetta snýst um að við förum rétt að þannig málið komi ekki niður á sveitarfélaginu síðar."

Hann sagði málið snúast um veitinga- og gistirekstur sem byggst hefði upp í Fjarðabyggð síðustu misseri, ekki Hildebrand hótel. Þess vegna hefði hann ekki lýst sig vanhæfan.

„Vanhæfnisreglurnar eru skýrar. Það er ekki verið að ræða um málefni ættingja minna. Ég get ekki hlaupist undan merkjum."

Eydís Ásbjörnsdóttir, fulltrúi Fjarðalistans í bæjarráði, sagði miður að heyra þessa umræðu um Jón Björn. „Ég hef ekki skynjað að Jón Björn væri að vinna að sérhagsmunum."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.