Egilsbúð: Ekki búið að ákveða nýtt rekstrarform

nesk jan12 webForseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar segir samkeppnissjónarmið meðal þess sem hafa þurfi í huga þegar framtíð rekstrar Egilsbúðar í Neskaupstað verður ákveðin. Rekstrarumhverfið hafi breyst umtalsvert á síðustu árum.

„Núna snýst þetta fyrst og fremst um að samningur við núverandi rekstraraðila er útrunninn. Við töldum eðlilegt að gera hann upp um áramót en um leið fólum við bæjarstjóra að vinna hvernig best sé að halda áfram með útboð. Samkeppnissjónarmið eru eitt að því sem gæta þarf að," sagði Jón Björn Hákonarson á fundi bæjarstjórnar í dag.

Mikil umræða hefur verið um framtíð Egilsbúðar síðustu daga en samningur við núverandi rekstraraðila rennur út um áramót.

Reksturinn var upphaflega boðinn út til fimm ára. Þriggja ára samningur tók gildi seint á árinu 20111 og var síðan framlengdur um tvö ár árið 2013. Hann var síðan framlengdur um mánuð í nóvember þannig að skil yrðu um komandi áramót.

Ekki er heimild samkvæmt útboðsskilmálunum til að framlengja hann lengur. Norðfirðingar hafa lýst ótta sínum um framtíð hússins ef ekki verður veitingarekstur þar.

Bíða eftir gögnum frá bæjarstjóra

Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi Fjarðalistans, spurði um stöðu vinnunnar. Hún sagði að bæjarráð hefði ekki enn samþykkt nýtt rekstrarform heldur vísað málinu til bæjarstjóra. Ekki væru frá honum komin frekari gögn eða tillögur og þeim verði væntanlega vísað til nefnda þegar þær berist.

Jón Björn svaraði að bæjarstjórinn hefði síðustu daga rætt við ýmsa aðila sem tengist menningarstarfsemi á Norðfirði og upplýsingar úr þeim samtölum komi mögulega fyrir bæjarráð á mánudag.

Gistingu hætt eftir úrskurð Samkeppniseftirlitsins

Eydís sagði að það yrði að liggja fyrir lögfræðilegt álit eða dómafordæmi áður en menn fullyrtu að veitingarekstur í félagsheimilinu stæðist ekki samkeppnislög.

Jón Björn vísaði til þess að Samkeppniseftirlitið hefði árið 2003 úrskurðað að Fjarðabyggð hefði brotið samkeppnislög með að heimila sölu gistingu í Egilsbúð. Í kjölfarið hefði henni verið hætt. Fyrir 20 árum hefði ferðaþjónusta ekki verið möguleg á landsbyggðinni nema með fjárfestingu sveitarfélaga en nú séu nýir aðilar komnir á markaðinn sem taka þurfi tillit til.

Jón Björn benti enn fremur á leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins um að gæta skuli þess að samkeppni sé ekki skekkt þegar húsnæði sveitarfélaga sé selt eða leigt.

Hann sagðist skilja að umræða um félagsheimilin hreyfðu við miklum tilfinningum en þau hefðu á seinni árum átt erfiðra uppdráttar í breyttu samfélagi.

Óskyldum málum ruglað saman

Eydís kallaði eftir að mótuð yrði framtíðarstefna um félagsheimili Fjarðabyggðar en vinna stendur nú yfir við menningarstefnu þess.

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði miður hvernig óskyldum málum væri blandað saman í umræðunni, til dæmis rekstri Franska spítalans á Fáskrúðsfirði og Randúlfssjóhússins á Eskifirði.

Franski spítalinn sé í eigu Minjaverndar en Fjarðabyggð eigi Fransmannasafnið sem þar sé. Sjóhúsið sé í eigu Sjóminjasafns Austurlands sem sé sjálfseignarstofnun sem fleiri aðilar en sveitarfélagið standi að og með sjálfstæða stjórn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.