Sjávarútvegur og stóriðja halda uppi hagvexti á Austurlandi

alver alcoa april2013Sjávarútvegur og stóriðja standa undir tæpum helmingi af framleiðslu Austurlands. Fólki hefur ekki fjölgað til jafns við hagvöxt á svæðinu. Framleiðsla á mann er sú næst mesta á landsvísu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshluta fyrir árin 2009-2013.

Hagvöxtur á Austurlandi var um 1% á tímabilinu, nokkru minni en á landinu öllu. Árin 2010 og 2011 var hann meiri en á landinu en hríðféll síðari hluta ársins 2011 og dróst framleiðsla saman árin 2012 og 2013.

Hlutur Austurlands í landsframleiðslu árið 2013 var 4%.

Á sama tíma fækkaði fólki um 1,5% á svæðinu en launasumma hækkaði um 2-3% umfram landsmeðaltal.

Skipting launasummunnar gefur vísbendingu um hvar fólk vinnur. Stærstur hluti launatekna kemur úr sjávarútvegi, 25-40%. Í opinberri starfsemi er rúmur fimmtungur launasummunnar og rúm 10% í stóriðju. Verktakagreiðslur eru ekki taldar með launum.

Mismunur á hagvexti og fólksfjölgun er rakinn til stóriðjunnar. Vöxturinn sé þar og hún þurfi mikið fjármagn sem sé erlent. Vextir og arður af henni fari fyrst og fremst úr landi.

Í skýrslunni kemur fram að framleiðsla á mann sé rúmar 3 milljónir á hvern Austfirðing, sem er það næst hæsta á eftir höfuðborgarbúum.

Vöxturinn var fyrst og fremst í stóriðju og sjávarútvegi en samdráttur í öðrum atvinnugreinum, einkum byggingarstarfsemi sem skýrist af lokum stóriðjuframkvæmda 2009.

Sjávarútvegur er 25% framleiðslu Austurlands og stóriðjan 21%. Opinber þjónusta er um 13% af framleiðslu á Austurlandi sem er mun lægra hlutfall en í flestum öðrum landshlutum.

Á landsvísu er 17% framleiðslu í sjávarútvegi frá Austurlandi sem er næst mest á eftir höfuðborgarsvæðinu þar sem 22% eru framleidd. 12% stóriðjuframleiðslunnar kemur að austan en mest af höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi.

Sé litið farið lengra aftur í tímann, til ársins 2006, er hagvöxtur á Austurlandi um 50% og sker svæðið sig úr ásamt Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er fyrst og fremst uppbygging stóriðju eystra og vestra.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.