Flugstjóri þyrlunnar: Yfir Neskaupstað tók við okkur vindbál

Flugstjóri í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar lýsir sjúkraflugi þyrlu gæslunnar austur á firði í gærkvöldi sem verulega krefjandi verkefni. Til stóð að sækja sjúkling til Norðfjarðar en þar var ekki hægt að lenda vegna veðurs. Breiðdalsvík varð fyrir valinu í staðinn.


„Þetta var hörkuerfitt flug og sýndi mikilvægi þess að við æfum stíft og höldum okkur í þjálfun. Það reyndi á alla áhafnarmeðlimi."

Þetta segir flugstjórinn Þórarinn Ingi Ingason um flugið sem segja má að hafi staðið í 14 tíma. Upp úr klukkan hálf tvö í gær tók áhöfnin á loft frá Reykjavík á TF-SYN til leitar að týndum manni í Ölfusá.

Klukkan fjögur var óskað eftir þyrlunni í sjúkraflug austur í Neskaupstað þar sem ófært var fyrir venjulega sjúkraflugvél. Áhöfnin fór til Reykjavíkur, færði sig yfir í TF-GNÁ, tók um borð barnalækni, hjúkrunarfræðing og hitakassa.

Klukkan hálf sex fór þyrlan í loftið austur. Flogið var að Þorlákshöfn og þaðan suðurströndinni fylgt til Hafnar þar sem var millilent til að taka eldsneyti.

Þórarinn Ingi segir flugskilyrðin hafa verið erfið. „Veðurspáin gaf ekki til kynna beysið veður. Það var hvasst suðaustan vindur, mikil úrkoma og kolniðamyrkur. Við vorum með nætursjónauka en í svona mikilli úrkomu sést samt lítið með þeim."

Ekki lendingarfært á Norðfirði

Eftir hálftíma stopp fór þyrlan aftur á loft kortér yfir átta og þræddi sig meðfram austfjörðum þar til komið var að Norðfirði um klukkan níu.

„Við skriðum inn fjörðinn í mjög sterku vindróti. Við klíndum okkur utan í hlíð að norðanverðu til að forðast ókyrrðina.

Þegar við komum yfir bæinn tekur við okkur vindbál og þar var ekki lendingarfært. Við reyndum ekki einu sinni aðflug. Það var síður en svo flughæft þarna inni í firðinum. Hún vann fyrir kaupinu þessi elska."

Farið var eitt flug inn og út fjörðinn. Þá fóru menn að hugsa að næstu möguleikum. „Við höfðum höfðum samband við stjórnstöðina og óskuðum aðstoðar. Við höfðum Hornafjörð og Stöðvarfjörð í huga og þurftum að fá upplýsingar um aksturstíma og hvort fært væri landleiðina."

Aðstæður á Stöðvarfirði voru heldur ekki góðar. „Fjörðurinn er þröngur og skyggnið lélegt þannig við fórum ekki inn hann. Við vildum hafa bæjarljós en ekki lenda í dimmum afdölum."

Fundu tún á Breiðdalsvík

Úti fyrir Breiðdalsvík voru aðstæður skárri. „Vindurinn var nokkuð hreinn, við sáum ljós frá bænum, að það var fært inn þannig við fórum þangað, fundum okkur tún og lentum."

TF-GNÁ lenti við skólann á Breiðdalsvík kortér fyrir tíu, bæjarbúum að óvöru enda hafði ekki verið hægt að láta neinn vita þar sem allt var spilað af fingrum fram.

Læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn fóru á móti sjúkraflutningamönnunum á Reyðarfjörð. Flutningurinn á Breiðdalsvík gekk vel og þaðan var farið í loftið klukkan hálf eitt en þá höfðu barnið og tveir aðstandendur bæst í hópinn.

Millilent var á Höfn til að taka eldsneyti og var vélinni höfð í gangi til að halda hita á henni. Kortér yfir þrjú var lent í Reykjavík. Þórarinn Ingi segir skilyrði hafa verið eins á heimleiðinni og fyrr um kvöldið, hvasst og úrkomusamt með lélegu skyggni.

Stjórnstöðin huldi hlutinn í aðgerðinni

TF-GNÁ er björgunarþyrla af Super Puma gerð, smíðuð árið 2001 er því yngsta þyrlan í flota gæslunnar. „Þetta verk sýnir kannski þörfina á öflugum vélum þannig við getum sinnt þessari þjónustu. Þetta flug hefði ekki verið hægt á mikið minni vél."

Hann segir erfiðast hafa verið að takast á við veðrið og aðstæður. „Við urðum að vinna af fingrum far því við vildum með öllum ráðum koma barninu á áfangastað en við vöðum aldrei út í neina vitleysu.

Það sem sést ekki er öll skipulagningin í kringum svona flug. Stjórnstöðin skiptir þar miklu máli við ákvarðanatöku og geta gefið okkur upplýsingar um hvað sé framkvæmanlegt. Það koma margar hendur að því að lenda á Breiðdalsvík að nóttu til og flytja ungabarn í brjáluðu veðri langar vegalengdir.

Stjórnstöðin er oft huldi hlutinn í svona aðgerð. Við gætum ekki gengið svona langt ef við hefðum ekki stuðninginn frá henni. Hún sér um samtal við aðra viðbragðsaðila og að við fáum eldsneyti og lýsingu um miðja nótt á Höfn."

Þórarinn Ingi viðurkennir að það hafi verið gott að komast heim í nótt. „Það var gott að sjá barnið koma úr vélinni og að koma svo heim, þótt það hafi tekið smá stund að sofna. Ég skreið upp í rúmið til konu minnar og ungs barns okkar. Það gefur manni þakklæti eftir svona aðgerðir."

TF-GNÁ við skólann á Breiðdalsvík skömmu fyrir flugtak í nótt. Mynd: Arnþór Ingi Hermannsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.