Eins og malbikið hafi lyfst upp af Hringveginum

Hringvegurinn er stórskemmdur sunnan við Breiðdalsvík eftir veður næturinnar. Skemmdir hafa einnig orðið á hafnarsvæðinu og aðstöðu sveitarfélagsins.


„Það er eins og malbikið hafi lyfst upp og færst,“ segir Ingólfur Finnsson, björgunarsveitarmaður á Breiðdalsvík.

Þegar Austurfrétt hafði tal af honum var hann staddur við Meleyri, sunnan víkurinnar, að skoða aðstæður en miklar skemmdir eru þar á Hringveginum.

Ingólfur segir gríðarlegar skemmdir einnig hafa orðið á hafnarsvæðinu. „Það er eins og sprengja hafi lent niður í Nes. Þar er grjót út um allt og vegurinn niður á nýju bryggjuna hefur skolast í burtu.“

Flotbryggja losnaði þar upp og hugsanlegt að einn bátur hafi laskast. Hann var færður af svæðinu. Breiðdalshreppur er þar einnig með aðstöðu sem einhverjar skemmdir virðast hafa orðið á.

Í þorpinu sjálfu hefur ekki verið svo hvasst, Ingólfur segir athyglina aðallega hafa beinst að fyrrnefndum stöðum og ástandið verið verst meðan var stórstreymt.

Um mest allt Austurland hafa björgunarsveitir verið kölluð til í ýmis verkefni svo sem að hemja fiskikör, þakplötur, trampólín og hjálpa til þar sem vatn hefur flætt inn í kjallara.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.