Vatnsmýrin og flugvöllurinn eru flott par: Enginn vill flugvöllinn burtu

frambodsfundur_me_0018_web.jpgEnginn fulltrúi þeirra framboða sem bjóða fram í Norðausturkjördæmi vill flytja miðstöð innanlandsflugs úr Vatnsmýrinni í Reykjavík að svo komnu. Flytja þurfi aðra starfsemi með flugvellinum ef til þess kemur.

Þetta var meðal þess sem rætt var á framboðsfundi sem haldinn var í Menntaskólanum á Egilsstöðum í síðustu viku. „Mér er hjartanlega sama hvort hann er eða verður. Eins og staðan er í dag hef ég ekki efni á að nota hann,“ sagði Sigríður Lára Sigurjónsdóttir sem sat fundinn fyrir Lýðræðisvaktina.

Höskuldur Þór Þórhallsson Framsóknarflokki, Kolbeinn Aðalsteinsson Hægri grænum, Aðalheiður Ámundadóttir Pírötum og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, Sjálfstæðisflokknum, gáfu ákveðið svar um að þau teldu að flugvöllurinn ætti að vera áfram á sínum stað.

„Hann á að fara ef sjúkrahúsið fer með,“ sagði Gísli Tryggvason frá Dögun og bætti því við að flokkurinn styddi ekki byggingu hátæknisjúkrahúss „núna.“ Brynhildur Pétursdóttir, Bjartri framtíð, sagði flutning flugvallarins vera háðan því að „jafn góður eða betri“ staður fyndist.

„Ég veit ekki til þess að þessi flugvöllur vilji sjálfur fara. Síðast þegar ég spurði hann var hann ánægður,“ svaraði Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum. 

Jónína Rós Guðmundsdóttir, Samfylkingu, svaraði á álíka hátt: „Vatnsmýrin og flugvöllurinn eru mjög flott par. Við eigum að halda því saman.“

Þorsteinn Bergsson, Regnboganum var einnig á því að flugvöllurinn ætti að vera í Vatnsmýrinni. „Við höfum ekki efni á því að rúnta með flugvelli.“

Frambjóðendurnir voru einnig spurðir hverjar næstu stóru framkvæmdir í samgöngumálum ættu að vera í fjórðungnum. 

Flestir nefndu þar Fjarðarheiðargöng og bættan Axarveg. Aðalheiður og Gísli sögðu að því ættu Austfirðingar sjálfir að ráða. Þorsteinn kvaðst vilja gera átak í að fækka einbreiðum brúm og leggja bundið slitlag á malarvegi og Kolbeinn að fylgja ætti samgönguáætlun eins og hún lægi fyrri.

Þessu til viðbótar nefndi Sigríður Lára Hellisheiðargöng, Ásta Kristín viðhald núverandi vegakerfis og Brynhildur lýsti Samgöngum sem „spennandi hugmynd.“









Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.