Er niðurfelling skulda færsla á peningnum frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins?

frambodsfundur_me_0017_web.jpgNiðurfelling skulda gæti verið dulbúin færsla á fjármagni frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins í ljósi þess hvar skuldsettustu heimilin eru segir frambjóðandi Bjartrar framtíðar. Framsóknarmenn segja skuldaleiðréttingu fyrst og fremst gagnast ungu fjölskyldufólki.

Ráðstöfun þess fjármagns sem íslenska ríkið getur mögulega haft af vogunarsjóðum sem eiga í bönkunum var meðal þess sem tekist var á um á opnum framboðsfundi í Menntaskólanum á Egilsstöðum í síðustu viku.

„Er þetta ekki tilfærsla á peningum frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins í ljósi þess að skuldsettustu heimilin eru á suðvesturhorninu,“ sagði Brynhildur Pétursdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar.

Hún einnig að þetta væri peningar sem ekki væru í hendi. Fara yrði samningaleiðina þar sem íslenska ríkið ætti ekki gjaldeyri til að greiða hagnaðinn út.

Kysi Framsókn ef ég ætti stórskulduga villu í Arnarnesinu

Steingrímur J. Sigfússon, oddviti Vinstri grænna, benti á að fleiri hefðu verið í kröfuhafahópi bankanna heldur en vogunarsjóðirnir, meðal annars íslensku lífeyrissjóðirnir. 

Hann fullyrti að ríkisstjórnin hefði gert „allt rétt“ í samskiptum sínum við vogunarsjóðina. Gjaldeyrishöftin hefðu verið stækkuð þannig að þau næðu yfir þessa eignir. „Þess vegna höfum við samningsstöðu og þeir vita það.“

Steingrímur hélt því fram að óskynsamlegt væri að ákveða fyrirfram 20-30% skuldaniðurfellingu. Hann sagði að niðurfærsla skulda yrði á kostnað heimilanna. 

„Þeir sem eiga stærstu eignirnar, tóku stærstu lánin græða mest. Ef ég ætti stórskulduga villu í Arnarnesinu myndi ég kjósa Framsókn en ég skil ekki að nokkur skuli falla fyrir bullinu.“

Ungt fjölskyldufólk býr hringinn í kringum landið

Framsóknarmenn eru þeir sem mest hafa talað um að nýta ágóða af hagnaði sjóðanna til að fella niður skuldir íslenskra heimilda. „Það var fullyrt að það væri bara ríka fólkið í Reykjavík sem nyti leiðréttingarinnar. Ungt fjölskyldufólk hagnast mest á henni og það býr hringinn í kringum landið,“ svaraði Höskuldur Þór Þórhallsson fyrir þeirra hönd.

Eftir væri að rétta kjör þessa stóra þjóðfélagshóps og ekki næðist upp hagvöxtur fyrr en því væri lokið. Til þess þyrfti að leiðrétta hin stökkbreyttu lán.“

Ekki það sama að vera skuldugur og að vera í vandræðum

Gísli Tryggvason, Dögun, sagði að vogunarsjóðirnir yrðu að gefa eftir í frjálsum samningum. Þá væri rétt að hið opinbera tæki öll íbúðalán eignanámi og færði niður.

Þorsteinn Bergsson, Regnboganum, vildi byrja á að taka EES-samninginn til endurskoðunar. „Þjóð sem ekki er fullvalda getur ekkert gegn þessum sjóðum.“

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, Sjálfstæðisflokknum og Jónína Rós Guðmundsdóttir, Samfylkingunni, töluðu báðar um nauðsynina á að greiða niður skuldir ríkissjóðs en jafnframt nýta hugsanlegan hagnað í að bæta hag almennings. Jónína tók þó fyrir að ráðast ætti í flata niðurfellingu skulda.

„Við eigum eftir að sjá hvernig þeir samningar fara,“ sagði Sigríður Lára Sigurjónsdóttir frá Lýðræðisvaktinni. „Það er ekki það sama að vera skuldugur og vera í vandræðum.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.