Ríkið styrkir flug til Vopnafjarðar eitt ár í viðbót

thorsteinn_steinsson_vpfj_april13.jpgInnanríkisráðherra hefur staðfest að ríkið styrki flug til Vopnafjarðar út árið 2014 en til stóð að afnema styrkinn um næstu áramót. Sveitarstjórinn segir flugið skipta miklu máli til að halda uppi tryggum samgöngum við staðinn.

„Við fengum bréf um það í gærmorgun frá innanríkisráðherra þar sem segir að styrkurinn sé framlengdur um eitt ár. Við erum mjög glöð með að fá styrkinn áfram. Þá gefst okkur tími til að átta okkur á hvernig við förum að til framtíðar,“ sagði Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri, í samtali við Austurfrétt.

Ríkið styrkir flug Norlandair til Vopnafjarðar með viðkomu á Þórshöfn um 80 milljónir á ári. Til stóð að afnema styrkinn um næstu áramót. „Þetta flug skiptir samfélagið hér öllu máli. Þetta er eina almenningssamgönguleiðin til Vopnafjarðar.

Það er grundvöllur fyrir að hér sé gott að vera. Þótt maður vilji helst vera heima hjá sér þarf maður stundum að skjótast til og frá. Þetta veitir þeim sem koma hingað og vinna öryggi.“

Nýlega var byggður nýr vegur niður Vopnafjarðarheiði sem eflir mjög samgöngur við byggðarlagið. Hann lokast þó eins og aðrir heiðarvegir um helgar. Um síðustu helgi var hann til dæmis lokaður í tvo daga.

„Flugið er mikið öryggistæki. Ef ófært er landleiðina eins og um síðustu helgi, skiptir flugið miklu máli ef vá ber að hendi. Það skiptir líka starfsemina í sveitarfélaginu miklu máli að hafa daglega samgöngur.

Flogið er alla virka daga til Vopnafjarðar en ekki um helgar. „Við teljum að það sé mjög ásættanlegt.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.