Björgunarsveitir kallaðar til aðstoðar ferðalöngum á fjallvegum

halendisgaesla web1Björgunarsveitin Vopni á Vopnafirði hefur tvívegis verið kölluð vegna ferðalanga í vandræðum á fjallvegum það sem af er vikunni. Færð á vegum endurspeglar að haustið er komið.

Á þriðjudag var sveitin kölluð út þegar pallbíll með húsi á pallinum fór út af veginum á Biskupshálsi rétt fyrir kvöldmat. Útkallið gekk hratt og vel að því er fram kemur í frétt frá Vopna.

Í gær voru menn frá sveitinni kallaðir út vegna jeppa sem var fastur í snjó á Hellisheiði. Þar voru ferðamenn frá Ameríku sem ekki höfðu áttað sig á að veðrið færi kólnandi.

Viðbúið er að færð taki nú að spillast á fjallvegum. Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni eru hálkublettir á Möðrudalsöræfum og Breiðdalsheiði og hálka á Háreksstaðaleið, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Oddskarði. Snjóþekja er á Vatnskarði eystra og Öxi og þungfært er á Hellisheiði eystri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar