Farsælla að vinna með þróuninni: Fækkar í sveitum þrátt fyrir ljósleiðara og malbikaðar heimreiðar

skuli bjorn gunnarssonÞróun í tækni og samgöngum til sveita virðist meðal annars hafa leitt til fólksfækkunar sem aftur leiðir til fækkunar í skólum í sveitunum. Slík varð raunin í skólasamfélaginu í kringum Hallormsstaðarskóla en svipuð dæmi er að finna víða um heim.

Á þetta benti Skúli Björn Gunnarsson sem hélt ávarp fyrir hönd foreldra þegar skólanum var slitið í síðasta sinn fyrr í sumar.

Skólasögunni lauk þar með eftir hálfrar aldar starf vegna nemendafæðar en Skúli benti á að þegar skólinn var stofnsettur hefðu að meðal tali verið um fimm börn í íslenskri fjölskyldu en ekki tæplega tvö eins og í dag. „Sennilega var ástin magnaðri í þá daga eða bara lengra í apótekið."

En miklar breytingar hafa orðið síðan í íslensku þjóðfélagi. „Hluti af þessari þróun er hnignun sveitanna, hækkun meðalaldurs í dreifbýli og lítil nýliðun. Það gerist þrátt fyrir tæknibyltingar í búskap, ljósastaura, ljósleiðara og malbikaðar heimreiðar. Ekki bara hér heldur annars staðar á Íslandi og víðast hvar í heiminum.

Hvað veldur er erfitt að greina. En í dag er sjóndeildarhringur barnanna okkar svo miklu víðari en foreldranna á sama aldri. Heimurinn allur stendur þeim opinn með öll sín tækifæri en ekki bara sveitin heima, heiðin og skógurinn."

Þróunin er ekki öll slæm

Skúli sagði erfitt að vinna gegn þróun en farsælla að vinna með henni því nær ómögulegt sé að snúa henni við. Breytingarnar yrðu á löngum tíma af ýmsum ástæðum og ekki allar slæmar.

„Sú þróun sem gerir það að verkum að við erum hér saman komin í dag til að kveðja Hallormsstaðaskóla er ekki öll svo slæm. Þróunin hefur fært okkur betri vegi og betri farartæki. Sú þróun hefur það í för með sér að fólk inn til dala sækir vinnu í Egilsstaði eða jafnvel niður á firði og kaupstaðarferðir eru ekki lengur vikulega eða hálfsmánaðarlega.

Heimavistir eru aflagðar og skólabörn geta sofið heima og hitt foreldra sína daglega. Og framboðið í íþróttastarfi og tómstundum fyrir börn og unglinga hefur tekið stakkaskiptum frá því þegar menn komu saman eftir heyannadag og spörkuðu í bolta á missléttum túnum."

Samfélagið sem skapaðist í kringum skólann

Skúli Björn minnti líka á að með skólanum hyrfi ekki eingöngu menntastofnun heldur félagsleg stofnum sem hefði skipt miklu fyrir lífið í kring.

„Skólar eru nefnilega fyrst og fremst samfélög sem saman standa af nemendum, kennurum, öðru starfsfólki, foreldrum og nágrönnum. Þar sem slíkt samfélag var byggt upp í dreifbýli hér á árum áður varð það fljótt að hjarta sveitanna, staðurinn þar sem íbúarnir hittust, börnin menntuðust og ekki síst staður með atvinnutækifærum sem hleyptu nýju blóði í nærsamfélagið með ungum, menntuðum kennurum frá öðrum landshlutum.

Heimavistin gerði það að verkum að húsnæðið nýttist sem hótel fyrir ferðamenn yfir sumarmánuðina. Hallormsstaðaskóli var því ekki bara menntastofnun heldur vinnustaður með heilsárstarfsemi fyrir fjölda fólks. Fyrrum nemendur komu síðan gjarnan og unnu í gamla skólanum sínum á sumrin til að fjármagna framhaldsnám. Þannig héldust traust bönd milli skólans og samfélagsins í áratugi.

Þannig samfélag skapaðist í kringum Hallormsstaðaskóla strax eftir stofnun hans og skólinn hefur fært Upphéraðinu mannauð, menntun og atvinnu um hálfrar aldar skeið."

Ljóst sé að samfélagið á Hallormsstað verði öðruvísi en áður en framundan sé verkefni við að finna húsnæðinu nýtt og verðugt hlutverk.

„Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér? Hver veit nema sveitirnar nái að snúa vörn í sókn og ungum bændum fjölgi að nýju? Hver veit nema hér í skóginum stækki byggðin? En kannski verður skólanámið þá allt komið inn í sýndarveruleika og ekki lengur þörf á stórum byggingum. En hver veit? Kannski hljómar skólabjallan aftur að nýju."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.