Erlendir ferðamenn taka vel í að borga 100 krónur fyrir salernisferðina

IMG 1716Fyrr í sumar var opnuð ný klósettaðstaða í Egilsstaðastofu, við tjaldsvæðið á Egilsstöðum. Þar geta ferðamenn komið við og farið á klósettið fyrir eitt hundrað krónur. Ferðamönnum finnst ekkert tiltökumál að borga fyrir að nota klósettaðstöðuna, samkvæmt starfsmönnum Egilsstaðastofu.

Að sögn Heiðar Vigfúsdóttur, framkvæmdastjóra Austurfarar/Travel East, var mikil þörf á því að byggja upp almenningssalerni á Egilsstöðum. „Ferðamenn voru farnir að flykkjast inn á veitingastaði, sjoppur og aðra staði hér í bænum til að nota salerni. Þetta hafði oft á tíðum ekkert nema kostnað í för með sér fyrir þessa aðila,“ segir Heiður í samtali við Austurfrétt, en með þessum framkvæmdum er einnig verið að reyna að beina þungaumferð úr miðbænum.

Fljótsdalshérað fjármagnaði uppbyggingu aðstöðunnar, en hugmyndin kom frá Austurför/Travel East, sem rekur tjaldsvæðið, Egilsstaðastofu og vinnur fyrir Þjónustusamfélagið á Héraði.

Heiður segir uppbyggingu salernisaðstöðunnar bara einn lið í því verkefni fyrirtækja og verslana á Héraði að bæta þjónustuna á svæðinu, með það að markmiði að taka betur á móti ferðamönnum og fá þá til að staldra lengur við. 

Salernisferðir ferðamanna hafa verið töluvert í umræðunni upp á síðkastið og þá oftast í fremur neikvæðu samhengi. Heiður segir þó að ferðamenn sem heimsækja Egilsstaðastofu taki vel í það að borga 100 krónur fyrir að gera þarfir sínar í snyrtileg klósett.

„Fyrir erlenda ferðamenn er þetta bara hinn eðlilegasti hlutur, en ég held að sumum Íslendingunum finnist eingöngu eðlilegt að greiða fyrir svona aðstöðu erlendis og veit til þess að einhverjir hafa snúið við hljóðalaust og sparað sér 100 krónurnar. Langflestir nýta sér samt sem áður þjónustuna mjög sáttir og átta sig á því að það kostar að halda uppi snyrtilegri salernisaðstöðu,“ segir Heiður.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.