Hluthafafundur Búsældar á Egilsstöðum tekur afstöðu til kauptilboðs Kjarnafæðis í Norðlenska

kjarnafaedi nordlenska webHluthafafundur Búsældar ehf., sem hefst í Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan eitt í dag, tekur afstöðu til kauptilboðs Kjarnafæðis á öllum hlutabréfum Búsældar í Norðlenska matborðinu ehf. sem stendur að baki kjötiðnaðarfyrirtækinu Norðlenska. Um 520 bændur frá Eyjafirði suður að Kirkjubæjarklaustri eru hluthafar í búsæld.

Í samtali við Austurfrétt sagðist Óskar Gunnarsson, stjórnarformaður Búsældar, hvorki geta sagt til um hversu margir bændur myndu mæta á fundinn eða hver yrði líklega niðurstaðan. „Það verður að koma í ljós."

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst hljóðar tilboð Kjarnafæðis upp á kaup á genginu 2,0 eða um 740 milljónir fyrir félagið allt sem mun vera nokkuð undir matsvirði þess. Fundarboð barst í síðustu viku og telja sumir fyrirvarann frekur stuttan til að taka afstöðu til svo stórs málefnis.

Tilboð Kjarnafæðis var fyrst lagt fram fyrir rúmum mánuði og átti að gilda til 21. maí. Það var framlengt en sá frestur rennur út klukkan fimm í dag.

Í frétt þingeyska fréttamiðilsins 641.is um málið segir að hlutur hvers kjötframleiðanda sé afar misstór. Þannig eigi þrjú stór svínabú 18% í félaginu og aðeins einn framleiðandi til viðbótar yfir 1%. Í fréttinni segir einnig að bændur virðist alfarið á móti því að taka tilboði Kjarnafæðis.

Samkvæmt fundarboði þarf minnst 2/3 greiddra atkvæða á fundinum sem og 2/3 hluta hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum.

Búsæld ehf. var stofnuð í desember 2003 með það að markmiði að kaupa ráðandi hlut í Norðlenska. Árið 2003 var keyptur þriðjungs hlutur af KEA og árið 2007 var afgangur bréfanna keyptur af Norðurþingi, Akureyrarbæ og KEA.

Norðlenska tapaði tæpum 50 milljónum króna í fyrra en hagnaðurinn árið 2013 voru tæpar 140 milljónir. Velta félagsins í fyrra voru rúmir fimm milljarðar og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði tæpar 150 milljónir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.