Seyðfirskur listamaður veldur uppnámi í Feneyjum og meðal íslenskra álitsgjafa

moskan buchel webÓhætt er að segja að seyðfirski listamaðurinn Christoph Jules Büchel, fulltrúi Íslendinga á Feneyjatvíæringnum í ár, hafi valdið töluverðu uppnámi með verki sínu „Moskan". Lögreglan í Feneyjum hefur lýst henni sem öryggisógn og íslenskir álitsgjafar hafa margir lýst hneykslun sinni á verkinu og að Seyðfirðingurinn hafi verið útnefndur fulltrúi Íslendinga.

Verkið var afhjúpað á föstudaginn og hefur síðan, og raunar áður, vakið heimsathygli. Um það er fjallað í alþjóðlegum stórblöðum á borð við New York Times og The Guardian og auk þess bæði almennum fréttamiðlum og sérhæfðum listamiðlum um allan heim.

Þrátt fyrir fjölda múslima í Feneyjum hafa borgaryfirvöld þar aldrei veitt leyfi fyrir byggingu mosku, en þeir leggja margir á sig löng ferðalög til að geta lagt stund á trú sína í helgum húsum annarsstaðar.

Büchel breytti yfirgefinni kirkju í mosku og í þá sjö mánuði sem listsýningin stendur yfir er gert ráð fyrir reglulegu bænahaldi og viðburðum í íslenska skálanum.

Athygli vakin á stofnanavæddum aðskilnaði

Í kynningu á verkinu segir að bygging mosku hafi í gegnum tíðina vakið deilur víða um heim og geri enn í dag, þar með talið á Íslandi. Moskan skírskoti sérstaklega til samfélags múslima í Reykjavík og Feneyjum með von um að samvinna takist á milli þeirra.

Verkinu sé ætlað að draga athygli að stofnanavæddum aðskilnaði og fordómum í samfélaginu ásamt þeim deilum sem spretta af stefnumörkun stjórnvalda varðandi fólksflutninga, sem eru þungamiðjan í þjóð- og trúarlegum ágreiningi víða um heim.

Listaverk sem opið er almenningi

Og verkið eitt og sér hefur vakið athygli því New York Times og The Guardian greindu frá því fyrir helgi að lögreglan í Feneyjum hafi skilgreint íslenska skálann sem öryggisógn.

„Það er enginn pólitískur vilji til að hafa hafa þessa sýningu í hinni sögufrægu borg Feneyjum," hefur The Guardian eftir Nínu Magnúsdóttur, sýningarstjóra og eiginkonu Büchel.

Nokkrir múslimar mættu til föstudagsbænar þegar verkið var opnað en þeir voru fáir í samanburði við þann fjölda gesta sem komu til að skoða verkið. „Þetta er listaverk og almenningi er velkomið að skoða það."

Yfirvöld hafa hins vegar ekki fallist á að Moskan sé sakleysislegt listaverk. Lögreglan hefur varað við ofbeldi af hálfu íslamskra öfgamanna, eða antí-íslamista og borgaryfirvöld segja að formlegt leyfi þurfi fyrir bænahúsi. Þau sendu frá sér bréf þar sem hótað var að loka íslenska skálanum ef hann yrði áfram notaður til bænahalds. Þar er jafnframt bætt við að hvers konar undirbúningur, svo sem fótaþvottur, sé einnig bannaður.

Troðið í íslenska skálanum

Í grein The Guardian segir að mikil eftirvænting hafi ríkt gagnvart verki Büchel í aðdraganda hátíðarinnar og í Times kemur fram að við opnunina hafi íslenski skálinn verið troðinn af listaáhugamönnum með myndavélarnar á lofti.

Í annarri grein í New York Times er talað um verk Büchel sem eitt hið öflugasta á sýningunni. Það hafi vakið miklar tilfinningar meðal múslima sem hafi átt undir högg að sækja í Feneyjum og ekki upplifað mikið umburðarlyndi frá borgaryfirvöldum.

Vefmiðillinn Artnews skrifar að fyrstu bænastundirnar hafi gengið vel. Múslimar og listunnendur hafi skilið skó sína eftir við innganginn og setið saman, glaðst, brosað, faðmast, drukkið Fanta og maulað á smákökum meðan þeir hlustuðu á ræðuhöld.

Sendiherra Pakistan á Ítalíu þakkaði Nínu og Christop fyrir „ótrúlegt verk frá vinum okkar frá Íslandi." Hún lýsti íslenska skálanum sem stað þar sem „samfélög gætu komið saman og átt samtal sín á milli."

Tilgangslaust að senda Svisslending?

Verk Seyðfirðingsins hefur ekki síður espað upp íslenska álitsgjafa sem ýmist veitast að því að hann sé fæddur í Sviss eða sé mögulega að vanvirða aldagamla menningarhefð.

„Furðuleg er sú ráðstöfun að senda svissneskan myndlistarmann sem fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringinn," skrifar Egill Helgason og segir að Büchel setji upp verk sem komi Íslendingum „voða lítið við" og fjalli um fjarlægan menningarheim sem þjóðin þekki lítið eða skilji.

„Christoph hefði sjálfsagt verið ágætur fulltrúi Svisslendinga í Feneyjum – en það virkar með öllu tilgangslaust að senda hann frá Íslandi."

Jón Magnússon, sem sat á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, heggur í svipaðan stað. „Einhver tók ákvörðun um að Svisslendingur skyldi reisa mosku inni í kirkju í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda."

Christoph og Nína hafa haldið heimili á Seyðisfirði í ein sex ár, eftir því sem Austurfrétt kemst næst, og börn þeirra hafa verið þar í skóla. Hann er fæddur í Basel í Sviss árið 1966 og hefur sýnt verk sín víða um heim. Hann er með fastan samning við alþjóðlega listagalleríið Hauser & Wirth.

Feneyjatvíæringurinn stendur til 22. nóvember. Sýningin, sem eins og nafnið gefur til kynna er haldin á tveggja ára fresti, er einn virtasti og áhrifamesti listviðburður heims. Sýningin í ár er hin 56. í röðinni.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.