„Skiptir máli að við fáum að koma skoðunum okkar á framfæri": Ungmennaráð Fjarðabyggðar fundar með bæjarstjórn

nesk jan12 webAðbúnaður félagsmiðstöðva, aukið nemendalýðræði og endurvakning á 1. maí bíó var meðal þess sem ungmennráð Fjarðabyggðar vakti máls á, á sameiginlegum fundi þess með bæjarstjórn nýverið.

Sú hefð hefur skapast að bæjarstjórn haldi sameiginlegan fund með ungmennaráði Fjarðabyggðar að jafnaði einu sinni ári. Ráðið hefur verið starfandi frá árinu 2008 samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar og er því meðal annars ætlað að efla umfjöllun bæjaryfirvalda um málefni sem tengjast ungu fólki.

Alls lagði ungmennaráð fram sex mál. Auk þeirra sem þegar hafa verið nefnd, vakti ráðið máls á fjölgun veitingastaða í Fjarðabyggð, kyndingu og einangrun Fjarðabyggðarhallarinnar og að glæða tóm hús lífi, með því til dæmis að koma upp tennisvelli í tómri skemmu.

Sæti í ungmennaráði Fjarðabyggðar eiga Draumey Ósk Ómarsdóttir, María Rún Karlsdóttir, Rúnar Már Theódórsson, Steinar Berg Eiríksson, Dagur Ingi Valsson, Friðrik Júlíus Jósefsson, Marta Guðlaug Svavarsdóttir, Patrekur Darri Ólason og Daníel Styrmir Guðnason.


Ungmennin vilja láta til sín taka

Guðmundur Halldórsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Fjarðabyggðar, segir að fyrir utan þá lagaskyldu sem hvlíir á sveitarfélögum að starfrækja ungmennaráð, sé nauðsynlegt að fá sýn unga fólksins inn í bæjarmálin.

„Ungmennin vilja láta til sín taka, vinna á þessum vettvangi og þau koma oft með aðra sýn á málin og lausnir sem við sjáum ekki," segir Guðmundur.

Hann nefnir dæmi um skemmtilega hugmynd sem ungmennaráðið lagði fram á síðasta fundi. „Ungmennaráðið lagði fram þá tillögu að auka nemendalýðræði varðandi val á mat sem framreiddur er í grunnskólunum, að það kosti ekki meira að elda bragðbóðan mat án þess að það komi niður á hollustu og gæðum.

Í dag hafa þau lítið um matseðilinn að segja, en tillagan er tvíþætt. Annars vegar gengur hún út á að skipaður verði starfshópur nemenda sem fái það hlutverk að vinna með eldhúsunum að gerð matseðla. Það væri þá einskonar fulltrúalýðræði. Hins vegar snýst hún um að nemendur fái með beinum hætti að velja hvað sé boðið upp á, t.d. annan hvern föstudag með almennri kosningu. Það væri þá beint lýðræði.

Bæjarstjórn telur það ákveðið áhyggjuefni hve lítinn áhuga ungt fólk virðist hafa á sveitastjórnar- og alþingiskosningum. Með því að gefa ungmennum tækifæri til að segja sína skoðun og hafa þannig áhrif á málefni sem þeim eru mikilvæg, gæti áhugi á almennum kosningum aukist. Málinu hefur verið vísað til fræðslunefndar, þar sem það verður tekið fyrir," segir Guðmundur.


Það er hlustað á okkur

María Rún Karlsdóttir, nemi á fyrsta ári við Verkmenntaskóla Austurlands, er ein þeirra sem situr í ungmennaráði Fjarðabyggðar.

„Það er gott að vera með þessum hópi á fundum, í það minnsta út frá mínum bæjardyrum séð. Það sem skiptir mestu máli er að við fáum að koma okkar skoðunum og sjónarmiðum á framfæri, til dæmis ef við viljum að einhverju verði breytt í félagsmiðstöðvunum. Það er hlustað á okkur, en verið er að laga félagsmiðstöðvarnar, enda var það mikið rætt á síðasta fundi sem ég sat."


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.