Um 1500 félagsmenn AFLs í verkfalli: Ekki alltaf skýrt eftir hvaða samningi starfsmaður er ráðinn

afl trunadarmenn verkfall 30042015 0003 webUm 1500 félagsmenn í AFLi Starfsgreinafélagi lögðu niður vinnu á miðnætti í tveggja sólarhringa vinnustöðvun. Tveir starfsmenn sem stöðvaðir voru við vinnu í morgun sögðust ekki vita að þeir ættu að vera í verkfalli.

Verkfallið sem hófst á miðnætti nær til starfsmanna sem starfa eftir almenningum kjarasamningi AFLs og Samtaka atvinnulífsins annars vegar og hins vegar þeirra sem vinna eftir þjónustusamningi sem einkum nær til gisti- og veitingahúsa.

Verkfallið leiðir til þess að veitingastaðir, kjöt- og fiskvinnslur og gististaðir eru víða lokanir auk þess sem skortur á ræstingum hefur víða áhrif.

Verkfallsverðir félagsins hafa verið á ferðinni í morgun og stöðvuðu í morgun tvo starfsmenn í ræstingum sem báru því við að þeir hefðu ekki vitað af því að þeir ættu að vera í verkfalli.

Þær spurningar virðast vakna víða og bæði félagsmenn í AFLi, sem starfa eftir öðrum samningum og smærri atvinnurekendur spyrja hvort þeirra starfsmenn eigi að vera í verkfalli.

„Það var þó nokkur ruglingur í verkfallinu á fimmtudaginn en ég held að þetta hafi skýrt mikið þá. Við erum með marga kjarasamninga og það er ekki alltaf skýrt á hvaða kjarasamningi starfsmaður er ráðinn," segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs.

Félagið hefur birt myndir af meintum verkfallsbrjótum frá því á fimmtudag á vef sínum. Fyrirtæki í sorphirðu, flutningum og ræstingum eru þar mest áberandi.

Næsta verkfallslota hefur verið boðuð 19. og 20. maí. Fundað var í deilu Starfsgreinasambandsins og SA í gær en sá fundur bar ekki árangur. Næsti fundur er boðaður á föstudag.

„Samtök atvinnulífsins sendu okkur samningsboð á sunnudag sem þeir hafa kynnt með 20% hækkun dagvinnulauna. Við svöruðum því fyrst í gær og höfnuðum hluta þess sem er langt frá okkar kröfum. Meðal þess sem SA býður er breyting á vinnufyrirkomulagi sem felst í að lengja dagvinnutímabilið og lækka yfirvinnuálagið."

Þá samþykkti trúnaðarráð AFLs á fundi sínum í gærkvöldi að efna til atkvæðagreiðslu um verkfall hjá verslunarmönnum líkt og önnur aðildarfélög Landssambands íslenskra verslunarmanna sem hafa boðað verkfall í áföngum frá og með 28. maí. Um 220 verslunarmenn eru á kjörskrá hjá AFLi.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.