Rannsakar áhrif gosmengunar á austfirskt samfélag: Náttúruvá sem við höfum ekkert vald yfir

sigrun maria kristinsdottir 0001 webSigrún María Kristinsdóttir, nýdoktor hjá land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Almannavörnum, hefur rætt við Austfirðinga um upplifun þeirra af mengun frá eldgosinu í Holuhrauni. Hún segir áhugavert að kanna hvernig samfélagið bregðist við þegar upp komi vá sem maðurinn hafi lítið vald yfir.

„Náttúruváin er áhugaverð því við höldum svo oft að við búum í heimi sem við stjórnum svo miklu í en þegar kemur að eldgosum og hættum samfara þeim erum við ósköp valdalítil," segir Sigrún María.

Rannsóknin er hluti af stórri samnorrænni rannsókn, sem leidd er af Háskóla Íslands, um hvaða áhrif náttúruhamfarir hafa á samfélög.

Sigrún María hélt í liðinni viku til á Fáskrúðsfirði en hún hefur tekið viðtöl víða um Fjarðabyggð. „Ég hef leitað að fólki sem tilbúið er til að segja mér sögu sína, svo sem fulltrúar vinnustaða eða annarra hópa, um hvernig var brugðist við og hvaðan upplýsingar fengust þegar mengunin fór upp úr öllu valdi."

Áherslan er á áhrif brennisteinstvíoxíðsmengunar. Sigrún segir Austfirði hafa verið valda því þar hafi mælst há mengunargildi en einnig er verið að meta áhrif íbúafunda sem haldnir voru um mengunina.

„Við byrjum á viðtalsrannsókn við íbúa og út frá viðtölunum kortleggjum við áhrif þess að búa við gasmengun frá eldgosi sem enginn maður hefur vald yfir heldur bara veður og vindáttir.

Við erum að skoða ýmiss áhrif mengunarinnar á samfélagið hér eystra, svo sem hvort samstaðan hafi aukist eða hvort hún hafi haldist óbreytt. Það er margt áhugavert að skoða um viðbrögð samfélagins þegar svona kemur upp."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.