Fjarðaál hvetur starfsfólk til að nota einkabíl í verkfallinu

alver 14082014Verkfallsaðgerðir Starfgreinasambandsins hófust kl. 12 í dag og hafa um 10.000 manns lagt niður vinnu. Verkfallið mun standa yfir í hálfan sólarhring, frá hádegi til miðnættis. Eftir það taka við regluleg sólarhringsverkföll þar til ótímabundið verkfall hefst 26. maí.

Hvetja starfsfólk að nota einkabíla

Rútubílstjórar eru meðal þeirra sem lögðu niður störf núna í hádeginu. Þar á meðal eru þeir bílstjórar sem keyra álversrúturnar sem koma starfsfólki Alcoa Fjarðaáls í og úr vinnu og munu af þeim sökum einhverjar ferðir falla niður seinnipartinn.

„Það eru ekki allar ferðirnar sem falla niður. Það fer eftir því í hvaða stéttarfélagi viðkomandi bílstjóri er. Eskifjörður – Neskaupstaður fellur ekki niður og ekki Seyðisfjörður. En það falla niður ferðir seinnipartinn um Suðurfirðina og upp í Hérað til Egilsstaða.
Við bregðumst við með því að nota leigubíla í einhverjum tilvikum en til að leysa þetta hvöttum við líka okkar fólk að koma á sínum bílum og sameinast í bíla,“ sagði Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls í samtali við Austurfrétt.

Borgum kílómetragjald

Aðspurð um hvort rétt sé að fyrirtækið borgi fólki fyrir að koma á einkabílum segir Dagmar: „Við erum ekki að borga fyrir bíla undir fólk, en við greiðum kílómetragjald eins og þeir starfsmenn fá sem nota einkabíla til vinnu að staðaldri,“ bætir hún við.
Dagmar segir fyrirtækið vonast til að deilan leysist sem fyrst. „Þetta er bara eins og hvert annað hundsbit. Við virðum að sjálfsögðu rétt fólks til að grípa til verkfalla og leysum úr stöðunni eins og hægt er. En við vonum eins og allir að þessar kjaradeilur leysist farsællega. Það er auðvitað ekki gott til langs tíma að búa við svona verkfallsaðgerðir. En sjáum hver framvindan verður og það er verið að skoða hvaða leiðir við nýtum,“ segir Dagmar.

Lögðu niður störf í hádeginu

„Allir starfsmenn okkar sem eru félagsmenn í Afli lögðu niður störf klukkan tólf. En það mun allt ganga eftir áætlunum. Það eru ekki menn í Afli sem keyra álversrúturnar. Það eru nóg af mönnum sem eru ekki félagsmenn til að leysa það verkefni,“ segir Hlífar Þorsteinsson, forstjóri og eigandi Austfjarðarleiðar þegar blaðamaður heyrði í honum.

Keyra allar áætlunarferðir í dag

„Auðvitað eru verkefni sem falla niður vegna verkfallsins, en aðrir starfsmenn sem eru ekki í Afli halda bara áfram sinni vinnuog klára þau verkefni sem þeir komast yfir, annað verður fellt niður. Svo mun ég og eigendur fyrirtækisins grípa eitthvað inní. Við munum ekki senda neina bíla í hópferðir. En við leggjum höfuðáherslu á að keyra allar okkar áætlunarferðir í dag, Við getum leyst það og keyrsluna til Alcoa,“ segir Hlífar að lokum.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.