Íbúar gagnrýnir á sölu veitustofnana

ibuafundur fbyggd kpmg 0007 webÍbúar, sem tóku til máls á íbúafundi á Reyðarfirði þar sem kynnt var skýrsla KPMG um mögulegar hagræðingaraðgerðir í rekstri sveitarfélagsins Fjarðabyggðar, virtust efins um hugmyndir um að selja veitustofnanir sveitarfélagsins. Sérfræðingur segir menn þurfa að bera saman haginn af því að fá sölutekjur strax eða virði í framtíðinni í formi arðs.

KPMG lagði til að farin yrði blönduð leið við hagræðingu í rekstri þannig að seldar yrðu eignir og borguð niður lán. Rafveita Reyðarfjarðar og Hitaveita Fjarðabyggðar voru meðal þeirra eigna sem nefndar voru.

Sala eignanna var það sem íbúarnir virtist hafa mestan áhuga á. Þeir spurðu út í rekstur veitnanna, hvort þær skiluðu ekki bæjarbúum góðum arði árlega, hversu miklar framtíðartekjur myndu tapast og hvort mögulegt söluandvirði hefði verið metið.

Afgangur af veitunum

Snorri Styrkársson, fjármálastjóri Fjarðabyggðar, sagði að báðar veiturnar stæðu undir sig. Rekstur hitaveitunnar, sem byggist aðallega á hitaveitu á Eskifirði en einnig fjarvarmaveitu á Norðfirði og Reyðarfirði, sé hins vegar ekkert sérstakur.

Hún hafi skilað 21 milljón í hagnað í fyrra en skuldi alls um hálfan milljarð króna. Lítil hamingja hafi verið með 50% hækkun á heita vatninu á árunum 2009-11 en eftir það standi veitan undir sér.

Rafveitan stendur betur, skuldir hennar eru „að verða mjög litlar" en hagnaður hennar hefur verið 15-20 milljónir á ári.

Í úttekt KPMG er hvatt til að gjaldskrár veitnanna verði endurskoðaðar verði þær ekki seldar. Takmarkanir eru á hversu mikinn arð þær mega greiða auk þess sem Snorri benti á að vart yrðu allir sáttir um að auka álögur á Eskfirðinga til að greiða niður skuldir heildarinnar.

Sumar eignir seljanlegri en aðrar

Helgi Rafn Helgason, frá KPMG sem kom að gerð skýrslunnar, svaraði því til að ekki hefði verið slegið á mögulegt söluandvirði. Gert er ráð fyrir sölu eigna upp á alls 600 milljónir króna en ekkert sé fast í hendi um hvort hægt sé að selja þær yfir höfuð.

„Þær hafa skilað fínum afgangi og þess vegna eru fólgin verðmæti í þeim. Það vill enginn kaupa eign sem tap er á. Sumar eignir eru seljanlegri en aðrar.

Ef við seljum í dag þá fáum við framtíðararðinn nú en ekki seinna. Þetta er ekki auðvelt hagsmunamat. Við vildum varpa þessum tillögum fram en annars er þetta umræða sem þið verðið að eiga."

Tölurnar um sölu eigna byggjast meðal annars á fasteignum í eigu sveitarfélagsins sem eru mismikið notaðar. „Sumar eignir eru ekki seljanlegar en skapa kostnað. Þá þarf að velta fyrir sér hvort gefa eigi þær undir starf eða farga þeim."

Hví þarf að taka til í A-hlutanum?

Fundargestir spurðu einnig hvers vegna þörf væri að ráðast í tiltekt í rekstri A-hluta sveitarfélagsins þegar góður afgangur væri af heildinni.

Helgi Rafn svaraði því að A-hlutinn þyrfti að geta staðið undir sínum skuldbindingum einn og sér því takmarkað væri hvað B-hlutinn mætti gera til að styrka A-hlutann. Áherslan væri því á hann og hans skuldir. Rúmlega 70 milljóna tap varð á A-hlutanum í fyrra.

„Þið þurfið ekki að fara okkar leið, þið eruð á réttri leið og getið haldið áfram á sömu braut. Hversu hratt og hvernig þið greiðið niður skuldirnar er ykkar ákvörðun.

Það er samt ábyrgðarhluti að vera ekki í stöðu til að geta mætt áföllum eða gripið tækifærin. Við reynum að meta hvað við myndum gera og það er að reyna að komast sem fyrst út úr þessari skuldastöðu með því að taka erfitt tímabil en vera svo í miklu betri stöðu."

Hélt ég væri að færa góðar fréttir hér

Nokkrir fundarmanna bentu á að útgáfa skýrslunnar hefði varpað neikvæðu ljósi á sveitarfélagið, það hljómaði eins og allt væri í kaldakoli.

Helgi minnti á að þrátt fyrir allt væri Fjarðabyggð eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins. Ávirðingar um að sverta ímynd sveitarfélagsins virtust hins vegar koma honum á óvart.

„Ég vann síðast í Reykjanesbæ og fannst ég vera að færa svo góðar fréttir hér."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.