Fengu sjávardýr í heimsókn í leikskólann: Þetta vakti þvílíka lukku - myndir

Bjarkatun 7Krakkarnir í leikskólanum Bjarkatúni á Djúpavogi fengu heldur betur óvænta heimsókn þegar einn pabbinn, Jón Ingvar Hilmarsson kom að sækja dætur sínar seinni partinn í gær.

Hann var nýkomin af sjónum og hafði með í för nokkur sjávardýr sem hann sýndi börnunum. Þetta voru Steinbítur, Rauðmagi, Krabbi og Krossfiskur.

„Þetta vakti þvílíka lukku. Dýrin voru sprelllifandi og krökkunum fannst gaman að sjá þegar Jón lét Steinbítinn bíta í spýtu svo fast að það var hægt að taka hann upp á spýtunni. Síðan var krabbi sem rölti um gólfið og Rauðmagi sem saug sig fastan á gluggann. Krökkunum fannst þetta æðislegt,“ segir Þórdís Sigurðardóttir, aðstoðarleikskólastjóri á Bjarkatúni í samtali við Austurfrétt.

Bíða spennt eftir næstu heimsókn

Voru þau ekki smeyk? „Bara pínulítið fyrst en svo fór fljótt að braggast í þeim. Krossfiskurinn var eina dýrið sem þeir hugrökkustu þorðu að halda á en svo voru nokkrir sem prófuðu að klappa steinbítnum. En þetta var algerlega óvænt, sem var svo gaman. Jón kvaddi okkur svo með því að segja að hann ætlaði næst að koma með hákarl eða jafnvel hnísu (minnsti tannhvalurinn hér á landi), og nú bíðum við spennt eftir næstu heimsókn,“ bætir Þórdís við.

Kemur með hnísu næst

En hvernig datt Jóni þetta í hug? „Ég hef gert þetta áður og hef bara gaman af þessu. Ég hélt þessum sprelllifandi í kari áður en ég kom og svo sleppti ég þeim aftur í sjóinn þegar ég fór,“ segir Jón Ingvar, sjómaður þegar blaðamaður Austurfréttar náði á hann í dag.

En á að standa við loforðin um hákarlinn? „Það er aldrei að vita. Ég var samt að vona að ég fengi hnísu í dag til að geta sýnt þeim, en það tókst ekki. Ég kem með hana á bakinu næst þegar ég fæ hann,“ segir Jón að lokum.

Myndir: Leikskólinn Bjarkatún
Bjarkatun 6
Bjarkatun 5
Bjarkatun 4
Bjarkatun 3
Bjarkatun 1
Bjarkatun Forsida

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.