Síldarvinnslan býður 99 starfsmönnum í ristilspeglun

SVN ristilspeglun webSíldarvinnslan og Heilbrigðisstofnun Austurlands hafa gert með sér samning um að öllum starfsmönnum Síldarvinnslunnar, sem náð hafa 50 ára aldri, gefist kostur á ristilspeglun þeim að kostnaðarlausu. Auk þess gefur fyrirtækið sjúkrahúsinu nýtt speglunartæki.

Mun nýja tækið gera sjúkrahúsinu betur kleift en áður að sinna almennri þjónustu á þessu sviði. Jón Sen skurðlæknir mun annast speglanirnar. „Það var biðlisti í ristilspeglanir en nú fer hann hratt minnkandi. Nýja tækið var tekið í notkun nýlega og það gjörbreytir allri aðstöðu okkar og möguleg afköst tvöfaldast. Þetta nýja tæki er algert topptæki og gott að vinna með því þannig að þessi þáttur starfseminnar á eftir að ganga vel."

Ánægjulegt að hefja verkefnið í Mottumars

Ristilkrabbamein er þriðja algengasta tegund krabbameins hjá báðum kynjum. Ef það greinist á frumstigi eru yfirgnæfandi líkur á lækningu, en það veldur einkennum tiltölulega seint og því er skimun afar mikilvæg.

Í töluverðan tíma hefur verið skorað á stjórnvöld að tryggja fjármagn til skipulegrar skimunar á ristilkrabbamein. Ekki hefur tekist að fá fjármagn í það verkefni.

Í ljósi þess ákvað Síldarvinnslan að taka málin í sínar hendur og er sú ákvörðun til hreinnar fyrirmyndar.

Að sögn Hákons Ernusonar starfsmannastjóra Síldarvinnslunnar eru starfsmenn fyrirtækisins, sem eru 50 ára og eldri, 99 talsins og eiga þeir allir rétt að ristilspeglun sér að kostnaðarlausu. „Afar ánægjulegt er að geta hafið verkefnið í Mottumars. Gert er ráð fyrir að síðustu starfsemennirnir verði kallaðir í speglun undir lok ársins. Á haustmánuðum verður svo tilkynnt um fyrirkomulag speglana á starfsmönnum Síldarvinnslunnar í Helguvík og á Seyðisfirði."

Ljósmynd: Elín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen skurðlæknir hjá ristilspeglunartækinu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.