365 miðlar tilbúnir að slökkva á netsambandinu í sveitinni með mánaðar fyrirvara

jon runolfur jonsson hallbjarnarstodumNetnotendur á Fljótsdalshéraði óttast að verða netsambandslausir en 365 miðlar hyggjast hætta hætta rekstri netkerfis á svæðinu. Af þeim sökum hefur fyrirtækið um allnokkurt skeið neitað nýjum notendum um að tengjast. Bóndi í Skriðdal þarf að keyra á næstu bæi til að komast í netsamband.

„Samkvæmt þessu verður öllu slaufað, slökkt á þeirra sendum og þjónustu á Fljótsdalshéraði," segir Jón Runólfur Jónsson sem fyrir um ári hóf búskap á Hallbjarnarstöðum í Skriðdal.

Hann hefur allan þann tíma reynt að fá netsamband á nýbýlið en ekki haft erindi sem erfiði. Íbúar í dalnum, sem og víðar í Fljótsdalshéraði, hafa undanfarin ár reitt sig á netsamband á vegum eMax sem kom upp sendum á völdum stöðum.

365 miðlar hafa síðan yfirtekið eMax og þangað snéri Jón Runólfur sér með umleitanir sínar. Hann segist strax hafa fengið þau svör frá fyrirtækinu að kerfið væri orðið lélegt og þyrfti endurnýjunar við.

Það haf bent á sveitarfélagið en samkvæmt þeim upplýsingum sem Jón Runólfur hefur aflað sér ber það ekki ábyrgð á að endurnýja búnaðinn.

Þá hafi hann fengið þau svör að kerfið væri úrelt. „Mér finnst það undarlegt þar sem hver bærinn á eftir öðrum hefur farið í eyði en samt virðist vera yfirálag á kerfinu."

Jón Runólfur segir að eftir 8 mánaða beiðnir um að fá að tengjast loftkerfi 365 hafi fyrirtækið hætt að svara fyrirspurnum hans. Hann hafði þá samband við Póst- og fjarskiptastofnun sem krafði 365 um svör.

Í svari Daníels Gunnarssonar, verkefnastjóra hjá 365 til stofnunarinnar, segir að kerfið sem rekið sé á Fljótsdalshéraði sé „gamalt og úr sér gengið." Ákveðið hafi verið innan fyrirtækisins að hætta rekstri þess „sökum of mikils rekstrarkostnaðar."

Því er haldið fram að núverandi notendum hafi verið tilkynnt ákvörðunin en það kannast Jón Runólfur ekki við. „Þeir segjast vera búnir að tilkynna þetta en enginn af þeim notendum sem ég hef talað við virðist kannast við það."

Ekki hefur verið endanlega ákveðið hvenær slökkt verði á kerfinu en í bréfinu segir að notendum verði tilkynnt sú dagsetning með mánaðar fyrirvara. Af þessum sökum sé „því miður" ekki hægt að taka inn nýja notendur á Fljótsdalshéraði.

Jón Runólfur hafði aftur samband við Póst- og fjarskiptastofnun auk Fjarskiptasjóðs en fékk þau svör að fyrirtækið sé ekki skyldugt til að halda kerfinu gangandi.

„Þessu verður bara slaufað með 30 daga fyrirvara hvenær sem er. Þeim er heimilt að slökkva þótt ekkert annað sé í boði og þá verðum við bara sambandslaus."

Hann segir netleysið hamla búskapnum. Allt bókhald, skýrslugerðir og umsóknir séu komin í rafrænt form, varahlutir í tæki séu pantaðir á netinu auk annarrar þjónustu. „Þetta er eitthvað sem maður verður að hafa í dag. Það er ekkert val um að hafa netsamband eða ekki."

Niðurstaðan er að hann hefur alls staðar rekist á veggi. „Þetta er bara pattstaða. Ég þarf að keyra í Egilsstaði eða fara á aðra bæi til að komast í netsamband um óákveðinn tíma. Það er nokkuð ljóst."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.