Loðnuveiðar: Börkur kom með 2000 tonn eftir 30 tíma skottúr

malene s kh webBörkur NK landaði í dag yfir 2000 tonnum af loðnu á Norðfirði eftir rúmlega sólarhringsferð. Farið var í kapp við tímann þar sem óveðri var spáð á miðunum.

„Já, það var keyrt dálítið stíft á útleiðinni. Við fórum upp í 18-19 hnúta til að vera á undan veðrinu," segir Sturla Þórðarson, skipstjóri.

Loðnan veiddist um 15-20 mílur vestur af Ingólfshöfða. „Ætli við höfum ekki verið 30 tíma í túrnum. Við vorum um sex tíma á miðunum, köstuðum tvisvar og fengum smá afla hjá Polar Amaroq sem var kominn með fullfermi," segir Sturla.

Börkur kom svo til Norðfjarðar upp úr klukkan sex í morgun. Sturla segir loðnuna hafa verið góða og reiknar með að þorri hennar verði frystur á Japansmarkað.

Börkur heldur aftur á miðin í fyrramáli og stefnir á veiðar þegar veðrið batnar á þriðjudag. Nokkur skip hafa þó verið á veiðum út af Ingólfshöfða í dag, þar á meðal Vilhelm Thorsteinsson og Bjarni Ólafsson. Þá er Birtingur NK á leið á miðin sem og gamla Hoffellið.

Af Polar Amaroq er það að frétta að skipið lét úr höfn á Seyðisfirði upp úr klukkan sjö í kvöld, um tólf tímum eftir að það kom þangað drekkhlaðið tólf tímum fyrr.

Mynd: Kristín Hávarðsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar