Óseyrarbrekka á lista yfir umferðaröryggisaðgerðir hjá Vegagerðinni

utaf 5Í lok janúar fóru tveir bílar útaf í sömu brekkunni, í sunnanverðum botni Stöðvarfjarðar, sem oft er kölluð Óseyrarbrekka. Akstursaðstæður voru mjög erfiðar. Snjór, mjög hvasst og mikil hálka var á veginum. Óhöppin áttu sér stað með nokkurra klukkutíma millibili og voru tveir farþegar í hvorum bíl. Engin alvarleg slys urðu á fólki, en einhverjir hlutu minniháttar áverka.

„Þetta er leiðindabrekka og mjög varasöm. Það er farið að vekja athygli hjá okkur hvað það eru margir að fara útaf þarna. Það eru vindhviðurnar sem eru sérstaklega varasamar. Fólk sem býr hér þekkir þetta sérstaklega af vegum víða hér á Austurlandi sem liggja utan í fjöllum. Það eru margir mjög varhugaverðir staðir þar sem oft koma gríðarlegar hviður sem þarf að vara sig sérstaklega á,“ segir Elvar Óskarsson, lögreglufulltrúi í embætti lögreglunnar á Austurlandi, aðspurður um slysin.

Við skoðum allt

Mikil umræða hefur skapast um þessa akstursleið í framhaldi af óhöppunum, um hvort Vegagerðin ætli að grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir frekari slys á svæðinu. Austurfrétt setti sig í samband við G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúa hjá Vegagerðinni, og leitaði svara við þeirri spurningu.

„Við skoðum að sjálfsögðu allt sem gerist og ég get staðfest það að vegurinn um Óseyrarbrekkur er einn af þeim stöðum sem við erum með á lista yfir umferðaröryggisaðgerðir, það er að segja, vegrið og endurbætur á vegsvæði.
Við höfum undanfarin ár unnið að endurbótum á vegsvæðinu í sunnanverðum Fáskrúðsfirði ásamt uppsetningu á vegriði á nokkrum stöðum. Það er víðar þörf á vegriðum og þá sérstaklega á Sævarendaströnd þar sem vegur er með slæma legu, bratta fláa og þar er víða stutt út í sjó.“

Ekki vitað hvenær

Er hægt að nefna einhverjar tímasetningar á hugsanlegum aðgerðum: „Nei. Núna erum við að vinna að undirbúningi umferðaröryggisaðgerða þar sem umræddir vegkaflar eru til skoðunar ásamt öðrum hættulegum stöðum í vegakerfinu hjá okkur. Skipting fjárveitinga til þessara aðgerða verður ákveðin fyrir vorið og forgangsröðun verkefna ákveðin í framhaldinu og þá kemur Óseyrarbrekkan til skoðunar, ásamt öðrum náttúrulega,“ segir Pétur að lokum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.