Guðrún og Signý verða yfirverkefnastjórar hjá Austurbrú

signy gudrunjons austurbruGuðrún Áslaug Jónsdóttir og Signý Ormarsdóttir hafa verið ráðnar sem yfirverkefnastjórar Austurbrúar. Þær voru báðar starfsmenn Austurbrúar fyrir en þessar ráðningar eru í samræmi við nýtt skipurit Austurbrúar sem samþykkt var á framhaldsársfundi stofnunarinnar í haust. Breytingarnar hafa ekki för með sér fjölgun starfsmanna hjá Austurbrú.

Á framhaldsársfundi Austurbrúar 30. september sl. var samþykkt nýtt skipurit sem gerir ráð fyrir að sviðaskipting stofnunarinnar verði lögð af og stofnunin verði verkefnadrifin. Framvegis munu tveir yfirverkefnastjórar ásamt verkefnastjóra sveitarstjórnarmála starfa með framkvæmdastjóra við rekstur Austurbrúar.

Með þessum breytingum ætti skipulag Austurbrúar að verða mun sveigjanlegra, fagþekking nýtast betur auk þess möguleikar til þverfaglegrar samvinnu eru miklir. Markmiðið er sem fyrr að Austurbrú geti orðið sá aðili sem ríki, hagsmunaaðilar og íbúar geta leitað til með verkefni og einföldun stoðkerfis landshlutans í samræmi við áherslur hins opinbera.

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir ráðningu Guðrúnar og Signýjar marka tímamót í sögu Austurbrúar og að hún sé einn liður í því uppbyggingarstarfi sem framundan er hjá stofnuninni.

„Það var vitað frá upphafi að gera yrði ákveðnar breytingar á skipulagi Austurbrúar þegar reynsla væri komin á starfsemina og að því erum við nú að vinna. Verkefnastaðan er traust og alveg ljóst að mikil þörf er fyrir stofnun á borð við Austurbrú," segir hún.

Guðrún Áslaug Jónsdóttir hefur verið ráðin í stöðu yfirverkefnastjóra og hefur fyrst og fremst umsjón með samningsbundum verkefnum við opinbera aðila en þau eru skilgreind sem ráðgjöf og þjónusta við einstaklinga, sveitarfélög og fyrirtæki samkvæmt langtíma samningum.

Guðrún er fædd árið 1954 og er menntaður líffræðingur. Hún var áður hjá Þekkingarneti Austurlands en hefur hefur sinnt starfi fulltrúa háskóla- og rannsókna frá stofnun Austurbrúar árið 2012.

Signý Ormarsdóttir mun gegna stöðu yfirverkefnastjóra sérverkefna sem eru skilgreind sem þjónusta og ráðgjöf við einstaklinga, sveitarfélög og fyrirtæki tímabundið.

Signý er fædd árið 1960 og er menntaður grunn- og framhaldskólakennari auk þess sem hún er með sérnám í vöruþróun frá Danmörku. Hún var um árabil menningarfulltrúi hjá Menningarráði Austurlands en hefur undanfarið verið fulltrúi menningarmála hjá Austurbrú.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.