Sigurinn í tæknilegó keppninni til Fjarðabyggðar

TaeknilegosigurEinn + níu, lið Grunnskóla Reyðarfjarðar sigraði í tækni-og hönnunarkeppni grunnskólanema FIRST LEGO League á laugardaginn var. Alls tóku þrjú lið frá grunnskólum Fjarðabyggðar þátt í keppninni í ár, eða frá Grunnskóla Eskifjarðar, Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

Þá sigraði lið Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar í flokknum Besta lausn í hönnun og forritun vélmennis og  Nafnlausar, lið Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði sigruðu í flokknum Besta rannsóknaverkefnið: Er því óhætt að segja að krökkunum frá Austurlandi hafi gengið að óskum í keppninni.

Með sigrinum tryggði 1 + 9 sér þátttökurétt á heimsmeistaramóti FIRST LEGO League í St. Louis í Bandaríkjunum í vor. Heiti liðsins vísar til þess að í liðinu er einn strákur og níu stelpur.

Alls tóku 18 lið víðs vegar af landinu þátt í keppninni sem fór fram í Háskólabíói. Í hverju liði voru á bilinu 6-10 manns á aldrinum 9-16 ára og voru þátttakendur því hátt í 200 talsins.

Þema keppninnar í ár var „Skóli framtíðarinnar“ og þurftu keppendur meðal annars að forrita vélmenni úr tölvustýrðu Mindstorms-legói.

Þegar stigin í keppninni höfðu verið talin reyndist liðið Einn + níu sigurvegari. Í viðurkenningarskyni fyrir sigurinn hlaut liðið forláta LEGO-bikar og 150 þúsund króna úttekt frá aðalbakhjarli keppninnar, Nýherja, auk áðurnefnds þátttökuréttar í Bandaríkjunum.

Verðlaun voru veitt í eftirfarandi flokkum:

Besta lausn í hönnun og forritun vélmennis: LegóFásk úr Gunnskóla Fáskrúðsfjarðar.
Besta dagbókin: Gemsarnir úr Grunnskóla Hornafjarðar.
Besta rannsóknaverkefnið: Nafnlausar úr Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði.
Vélmennakapphlaup: Lið Breiðholtsskóla.


Mynd: liðið 1 + 9 á lokaæfingu fyrir keppnina, sem fram fór í Háskólabíói á laugardaginn.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.