Alþingi: LungA skólinn vænleg leið til að hjálpa nemendum að finna sína leið í lífinu

lungaskoli hopur1Þingmaður Bjartrar framtíðar hrósar LungA lýðháskólanum á Seyðisfirði og telur hann geta hjálpað við að draga úr brottfalli nemenda í íslensku skólakerfi. Menntamálaráðherra segir skólann áhugavert verkefni en fara verði varlega í að lofa fjármagni í nýjungar á framhaldsskólastigi.

Þetta kom fram í umræðum á Alþingi í síðustu viku en málshefjandi var Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar úr Reykjavíkurkjördæmi. Þingflokkurinn heimsótti skólann fyrir skemmstu og var ekki annað að heyra en þingmenn flokksins væru ánægðir með það sem þeir hefðu séð.

Björt fór yfir hvernig heimamenn hefðu byggt upp listahátíðina LungA sem hefði leitt til þess að skólinn hefði verið stofnsettur í anda norrænu lýðsháskólanna.

„LungA-skólinn á Seyðisfirði er eins og lýðháskólarnir á Norðurlöndunum ekki bara frábær viðbót við núverandi skólakerfi heldur vænleg leið, og rannsóknir hafa sýnt það, til að hjálpa nemandanum að finna sína leið í lífinu, finna sitt áhugasvið og ástríðu.

Það nám, sú sambúð og það óhefðbundna kennsluform sem stuðst er við í þeim skólum er liður í því að hjálpa nemandanum að finna hvað hann langar að gera í lífinu, hvar áhugasvið hans liggur og hvað tekur við; hvaða háskólanám eigi til dæmis að velja, iðnnám eða listnám."

Björt minntist á brottfall úr íslenska skólakerfinu og spurði síðan Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, hvort ekki stæði til að styðja skólann af fjárlögum.

Illugi sagðist hafa fundað með forsvarsmönnum skólans og hann teldi skólann „áhugaverða tilraun, áhugaverða nýjung sem geti orðið til gagns."

Hann sagðist þó vilja fara „mjög varlega í að gefa grænt ljós" á nýjungar í framhaldsskólakerfinu sem síðan reyndist erfitt að fjármagna, þótt það væri „mjög freistandi."

Illugi benti á að framlag til framhaldsskólastigsins hefði undanfarið ár verið dregið saman um tvo milljarða en nemendum fjölgað á sama tíma. Ekki væri búið að ná þeim framlögum sem voru til skólanna fyrir hrun.

Hann lýsti þó þeirri skoðun sinni að sérstaklega væri ástæða til að skoða vel með hvaða hætti LungA skólinn passi inn í íslenskt skólakerfi og hvernig hægt sé að fjármagna hann.

Björt minnti á að LungA skólinn væri ekki endilega bara á framhaldsskólastiginu og að það fjármagn sem til hans yrði veitt gæti sparast annars staðar. Hvatti hún því ráðherra til að láta skólann ekki bíða því hann leggi upp laupana fái hann ekki „styrka stoð í sitt grunnstarf."

Illugi ítrekaði að verið væri að auka framlag til framhaldsskólanna og áhuga sinn á LungA skólanum. Hann bætti því við að ekki þyrfti bara að skoða brottfallið heldur líka námsframvindu sem væri slök á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.

Nemendur úr LungA-skólanum. 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.