Sjálfboðastarfið skilaði björgunarsveitinni Geisla 1,2 milljónum króna: Þetta er ekkert nema heiður

Hopmynd geisliBjörgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði fékk á dögunum góða og vel þegna heimsókn þegar nokkrir starfsmenn Alcoa Fjarðaáls komu ásamt fjölskyldumeðlimum til að taka til hendinni við endurbætur á aðstöðu björgunarsveitarinnar í þorpinu.

Alls mætti 34 manna hópur í verkefnið, sem m.a. fólst í því að mála húsnæði sveitarinnar innandyra og klæða vörugám sem mun hýsa sjóflokk Geisla á starfssvæðinu við höfnina á Fáskrúðsfirði.

Þörf fyrir öflugan og vel búinn sjóflokk kom berlega í ljós er flutningaskipið Arnarfell strandaði að morgni 6. september, þar sem björgunarsveitarfólk í Geisla tók þátt í aðgerðum í kjölfarið. Það atvik sýndi mikilvægi björgunarsveitanna á svæðinu og gerði öllum ljóst hversu mikils virði öll sjálfboðavinna er fyrir öryggi og lífsskilyrði samfélaganna á Austurlandi og víðar.

Í reglum um sjálfboðaliðastarf starfsmanna Alcoa er gert ráð fyrir að taki tíu starfsmenn fyrirtækisins eða fleiri þátt í verkefni sem komi nærsamfélaginu í heild til góða greiði Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) 360 þúsund króna framlag í þágu verkefnisins. Í ár ákvað sjóðurinn að tíu verkefni á heimsvísu yrðu valin til að hljóta hærri styrk og var Geisli valinn hér á landi til úrtöku í þeim hópi. Nam upphæðin sem Geisli hlaut því tólf hundruð þúsund krónum, sem afhentar voru að vinnu lokinni laugardaginn 11. október þegar hópurinn kom saman.

Alcoa Foundation er sjálfseignarstofnun og einn af stærstu fyrirtækjasjóðunum í Bandaríkjunum. Hann veitir árlega fjölda styrkja til margvíslegra verkefna víða um heim og stendur fyrir verkefnum þar sem starfsmenn Alcoa og aðrir geta lagt sitt af mörkum í þágu nærsamfélagsins. Á þessu ári hafa sjálfboðaliðastörf starfsmanna Fjarðaáls skilað tæpum 5 milljónum króna til verkefna á Austurlandi.

„Dagurinn var bara æðislegur og heppnaðist gríðarlega vel. Það var líka ótrúlega mögnuð upplifun að fá þessa frétt daginn áður en dagurinn var haldin. Við erum ekkert nema þakklát að hafa orðið þess aðnjótandi að hafa verið einn af þremur aðilum í Evrópu að hafa fengið þennan aukastyrk. Þetta er ekkert nema heiður,“ segir Ólafur Atli Sigurðsson, formaður Geisla í samtali við Austurfrétt.

Mynd: Hluti sjálfboðaliða Alcoa samankominn að dagsverki loknu í þágu Geisla á Fáskrúðsfirði. Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa afhenti formanni sveitarinnar, Ólafi Atla Sigurðssyni, framlag Alcoa Foundation. Í miðið, fyrir aftan þau er Grétar Geirsson, gjaldkeri Geisla, sem bíður þess að fá ávísunina!


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar