Vinna hafin við gerð sameiginlegrar viðbragðsáætlunar: Ekki hægt að vona það besta og slappa af

almannavarnir 22082014 0005 webVinna er hafin við gerð sameiginlegrar viðbragðsáætlunar fyrir allt Austurland vegna afleiðinga öskugoss í Bárðarbungu eða gasmengunar frá eldgosinu í Holuhrauni. Deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra segir betra að vera undirbúinn fyrir það versta. Góður grunnur sé til staðar fyrir vinnuna í fjórðungnum.

„Það er hafinn undirbúningur að gerð viðbragðsáætlunar og það er vilji að allt Austurland sé undir í henni. Áætlunin snýr annars vegar að öskufalli frá eldgosi undir jökli en hins vegar gasmengun," segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna.

„Við leggjum til sérfræðinga til hjálpa og samhæfa vinnuna því þetta er stórt svæði með mörgum embættum og sveitarfélögum."

Fulltrúar almannavarna komu austur í vikunni og funduðu með viðbragðsaðilum á svæðinu. Bæði var farið yfir viðbúnað Austfirðinga og þróunina í Holuhrauni.

Víðir segir góðan grunn til staðar á Austurlandi því viðbragðsáætlanir séu yfirleitt eins og hér séu til dæmis til staðar áætlanir fyrir stíflurof við Kárahnjúka og flugslys á Egilsstöðum. Sú vinna og reynsla komi að góðum notum nú.

„Við undirbúum okkur undir það versta. Við getum ekki bara vonað það besta og slappað af. Á meðan þessar miklu jarðhræringar eru í gangi þarf lítið að gerast til að gos verði undir jökli.

Þegar eru fjögur dæmi um að kvika hafi komið upp undir jöklinum og myndað sigkatla. Þótt það gerist þarf ekki að verða öskufall en það getur líka orðið stórgos eins og í Holuhrauni. Við megum ekki gleyma að það er stórt gos."

Almenningur þarf ekki gasgrímur

Víðir segir mesta kostnaðinn við áætlanagerðina felast í vinnu sem dreifist á marga: sveitarfélögin, lögregluembættin og sjálfboðaliða eins og Rauða krossinn og Björgunarsveitirnar. „Þetta snýst fyrst og fremst um vinnuframlag þeirra sem hafa hlutverk og bera ábyrgð í málinu."

Til þessa er það helst brennisteinsmengun frá gosinu sem plagað hefur Austfirðinga. Víðir segir erfitt að spá fyrir um gasmengun þegar gos hefjist en nú viti menn hins vegar hlutfall kviku og gas og hversu mikið komi upp af kviku.

Þá voru í vikunni settir upp gasmælar víða um land og með þeim ættu spárnar að verða nákvæmari. „Þau spálíkön sem hafa verið unnin hafa reynst nokkuð vel. Við viljum hins vegar auka upplýsingastreymið þannig fólk geti undirbúið sig."

Nokkuð hefur verið selt af gasgrímum en Víðir telur ekki þörf fyrir almenning að birgja sig upp af þeim. „Sóttvarnalæknir ráðleggur okkur um það og hans sérfræðingar byggja á rannsóknum annars staðar frá og telja ekki þörf fyrir almenning til að vera með gasgrímur.

Við erum á móti að skoða að kaupa gasgrímur fyrir viðbragðsaðila. Annars vegar þurfa þær að vera til staðar ef fara þarf í björgunaraðgerðir nálægt gosstöðvunum eða við þurfum að senda fólk á vettvang til að kanna mjög staðbundna mengun."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.