22 framúrskarandi fyrirtæki á Austurlandi

Alls eru 22 austfirsk fyrirtæki á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki rekstrarárið 2015, en þetta var tilkynnt í Hörpu í byrjun mánaðarins.


Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að vera skráð hlutafélög, hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára, einnig þurfa líkur á alvarlegum vanskilum að vera undir 0,5% og félögin þurfa sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þriggja ára. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð og eignir séu 80 milljónir eða meira þrjú ár í röð.

Að þessu sinni hlutu 682 fyrirtæki viðurkenninguna, en það er um 2% af öllum skráðum fyrirtækjum á Íslandi. Creditinfo hefur birt lista framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010 en þá voru einungis 178 félög á listanum.

Mikil verðmæti felast í þessum fyrirtækjum

„Framúrskarandi fyrirtækjum hefur fjölgað verulega sem er jákvætt fyrir atvinnulífið og samfélagið. Þessi fyrirtæki eiga það sammerkt að sýna stöðugleika í rekstri og skapa þannig sjálfbær verðmæti fyrir hluthafa og fjárfesta. Fyrirtækin byggja á sterkum stoðum og eru ekki líkleg til að skapa kostnað fyrir samfélagið. Það felast því mikil verðmæti í þessum fyrirtækjum fyrir samfélagið í heild sinni, segir Leifur Grétarsson, sérfræðingur í viðskiptastýringu hjá Creditinfo.

„Á listanum er að finna stór fyrirtæki, meðalstór og lítil. Fyrirtækin eru mörg búin að vera á listanum síðustu tvö ár en færri í fleiri ár en það. Nokkur fyrirtæki koma ný inn á lista á Austurlandi, svo sem 701 Hotels og Austfjarðarleið ehf. Ennfremur hafa félögin G. Skúlason vélaverkstæði ehf. og Héraðsprent ehf. verið á listanum frá upphafi.“

Fyrirtækin sem um ræðir eru þessi;
  • Síldarvinnslan hf. – Neskaupstað
  • Loðnuvinnslan hf. – Fáskrúðsfirði
  • Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga svf. – Fáskrúðsfirði
  • Ölduós ehf. – Stöðvarfirði
  • Brimberg ehf. – Seyðisfirði
  • Launafl ehf. – Reyðarfirði
  • Þ.S. Verktakar ehf. – Egilsstöðum
  • G. Skúlason vélaverkstæði ehf. – Neskaupstað
  • 701 Hotels ehf. – Egilsstöðum
  • Kári Borgar ehf. – Borgarfirði
  • Framjaxlinn ehf. – Egilsstöðum
  • Hótel Framtíð ehf. – Djúpavogi
  • Fjarðanet hf. – Neskaupstað
  • Tanni ferðaþjónusta ehf. – Eskifirði
  • Tréiðjan Einir ehf. – Egilsstöðum
  • Héraðsprent ehf. – Egilsstöðum
  • Myllan ehf. – Egilsstöðum
  • Rekstrarfélagið Eskja ehf. – Eskifirði
  • Egilsstaðabúið ehf. – Egilsstöðum
  • Austfjarðaleið ehf. – Reyðarfirði
  • Bílar og vélar ehf. - Vopnafirði
  • Hólmi NS-56 ehf. - Vopnafirði

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.