Um 40 ómerktum kindum úr Loðmundarfirði slátrað

lombBúið er að slátra um 40 ómerktum kindum sem komu fram í göngum í Loðmundarfirði. Matvælastofnun fór fram á aðgerðina eftir að ábendingum stofnunarinnar var ekki sinnt.

Í frétt frá stofnunni kemur fram að henni hafi borist ábendingar um vanhirt fé í firðinum í vor. Áætlað hafi verið að um 60 fjár væri að ræða, þar á meðal hrútar. Í kjölfarið var krafist úrbóta af hálfu þess aðila sem talinn var eiga féð, en úrbætur voru ekki gerðar.

Síðla vors bárust að nýju ábendingar um að féð hefðist ennþá við í Loðmundarfirði, væri eftirlitslaust í sauðburði og án nokkurrar varnar gegn vargi eða veðrum og óvíst með fóður.

Eftirlit Matvælastofnunar í Loðmundarfirði staðfesti þær ábendingar sem borist höfðu og var töluvert um ómerkt fé og fé sem mátti ætla að ekki hefði komið á hús lengi. Hræ fundust í firðinum og mátti sjá ummerki um að féð hafði hafst við við sjávarmál þar til gróður tók við sér.

Matvælastofnun tók þá ákvörðun út frá velferð dýranna að vænlegast væri að fylgja kröfum eftir um haustið og koma í veg fyrir annan vetur með eftirlitslausu sauðfjárhaldi í firðinum.

Eftir fyrri göngur og réttir var ljóst að á sjöunda tug fjár var ómerkt og má telja að það hafi verið eftirlitslaust í firðinum síðastliðinn vetur og vor.

Samkvæmt lögum um velferð dýra er skylt að einstaklingsmerkja sauðfé og eru ómerkt dýr sem ganga laus skilgreind sem hálfvillt dýr.

Hægt var að sýna fram á eignarhald á 24 kindum, en annað ómerkt fé er þá samkvæmt lögum á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags. Sveitarfélaginu var ekki heimilt að flytja féð annað þar sem það var staðsett á riðusvæði.

Matvælastofnun upplýsti því sveitarfélagið og gerði kröfu um að Borgarfjarðarhreppur safnaði fénu saman og sendi til slátrunar. Þeirri framkvæmd er nú lokið.

Í tilkynningu MAST segir að einstaklingsmerking dýra sé nauðsynleg til að hægt sé að gera kröfu á viðkomandi eiganda ef velferð dýra er ógnað. Merkingin tryggi einnig að bændur geta sýnt fram á eignarrétt sinn og þá tryggir hún rekjanleika afurða þegar matvælaöryggi er ógnað.

Ef ekki er hægt að sýna fram á eignarhald á búfé sem gengur laust eiga dýraeigendur það á hættu að missa tilkall til dýranna. Við það færist ábyrgðin yfir til þess sveitarfélags sem dýrin eru í. Samkvæmt lögum um velferð dýra er viðkomandi sveitarfélagi skylt að taka dýr sem ganga laus í vörslu sína, lesa af einstaklingsmerkjum, sé þau að finna, og gera ráðstafanir til að hafa uppi á umráðamanni þeirra.

Sveitarfélögum er heimilt að innheimta áfallinn kostnað úr hendi umráðamanns, samkvæmt gjaldskrá. Ef umráðamaður finnst ekki eða getur ekki sýnt fram á eignarhald á dýrum sem ganga laus, þá er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa dýrunum til nýs eiganda, selja þau gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta tveimur sólarhringum frá handsömun.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.