Árni Páll: Tvískinnungur að slá um sig með flutningi Fiskistofu á sama tíma og opinber störf eru lögð niður

samfylking klm apa seydis 03092014 0025 webFormaður Samfylkingarinnar telur talsmenn ríkisstjórnarinnar á hálum ís með að slá um sig með flutningi Fiskistofu út á land á sama tíma og þar tapist opinber störf, einkum í heilbrigðiskerfinu. Hann varar við aukinni einkavæðingu í kerfinu.

„Síðan ný ríkisstjórn tók við er átakanlegast að sjá að það skortir þann metnað sem þarf í uppbyggingu á atvinnu og tækifærum," sagði Árni Páll Árnason, formaður flokksins, á opnum fundi á Seyðisfirði á miðvikudagskvöld.

Bæði hann og Kristján Möller, þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, gagnrýndu þar sameiningar heilbrigðisstofnað og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu.

Árni Páll sagði að „gengið væri langt í samþjöppun á valdi" með sameiningunum. „Afleiðingarnar eru yfirleitt þær að valdið fer frá fólkinu sem nota þarf þjónustuna. Ákvarðanirnar eru teknar af einhverjum sem hefur ekkert skinbragð á hvaða þjónustu er þörf."

Hver ræður sig í 40% starf?

Þeir nefndu dæmi frá Vopnafirði, þar sem þeir funduðu kvöldið áður, þar sem starfshlutfall hjúkrunarfræðings hefur verið lækkað í 40%. „Það gengur allt vel í útreikningunum í Excel en þjónustan gerir það ekki. Það spyr enginn þeirrar spurninga hver ráði sig í 40% vinnu," sagði Árni Páll.

Hann kvaðst efast um að fjárhagsleg nauðsyn væri á aðgerðunum og spurði hvort markmiðið væri að skapa svigrúm til að afhenda þjónustuna einkaaðilum. Hann hélt því fram að þrátt fyrir niðurskurð í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem hann sat í hefði ekki verið „hróflað við grunnþjónustunni í þessum dreifðu byggðum."

„Við þurfum að setja stór spurningamerki við þessar aðgerðir. Ríkisstjórnin er með þeim á kolrangri leið. Þetta er ekki leiðin ef markmiðið er að gera þjónustuna eins góða og mögulegt er."

Seyðfirðingar áhyggjufullir

Seyðfirðingar hafa lengi háð baráttu fyrir heilbrigðisþjónustu á staðnum og þrátt fyrir fullyrðingar Árna Páls var rifjað upp að í tíð fyrri ríkisstjórnar hefðu bæjarbúar myndað táknrænan varnarhring utan um sjúkrahúsið.

Þeir hafa hins vegar áhyggjur nú af undirmönnun, að þjónusta sé færð annað og að fyrirséð er að læknum mun innan skamms fækka úr tveimur í einn. Við það missir sveitarfélagið einnig útsvarstekjur.

„Á sama tíma slá menn um sig með flutningi Fiskistofu sem ekki hefur verið útfærður. Það er tvískinnungur að flytja hana en leggja á sama tíma fjölda mikilvægra starfa niður. Fyrst og fremst er verið að leggja niður mikilvæg háskólamenntuð ríkisstörf í heimabyggð," sagði Árni Páll.

Barátta við sérfræðilækna

Árni Páll sagði síðasta ríkisstjórn hefði náð 20% sparnaði á föstu verðlagi í heilbrigðiskerfinu. Ekki hefði þó tekist að spara kostnað við sérfræðilækna og hlutur þeirra í heildarútgjöldum til íslenskrar heilbrigðisþjónustu hefði hækkað frá árinu 2008.

Þá lýsti hann áhyggjum sínum af vaxandi kostnaði sjúklinga sem hafi farið úr 15% í 25% á síðustu 10 árum. Hann sagði hækkunina hafa „farið athugasemdalaust í gegn" þar sem hún sæist illa í opinberum tölum.

Þar kæmi fram hlutdeild sjúklinga þegar ríkið borgar á móti en vanti þegar sjúklingar borgi allan kostnað sjálfir. Dæmi um slíkt sé þegar fólk mæti í prufur daginn fyrir aðgerð og borgi þær að fullu en leggist ekki inn heldur komi aftur daginn eftir í aðgerðina.

Árni Páll var einnig spurður út í dagpeningakerfi þeirra sem leggjast inn á hjúkrunarheimili sem taka til sín nær allar tekjur vistmanns. Árni Páll kallaði kerfið „skelfilegt" og að heimilin biðu eftir að fá „fyrrverandi sendiherra og bankastjóra" enda væri „fengur" að fá þá.

Vara við nýjum hugmyndum um einkavæðingu

Kristján Möller sagði að á fyrir nokkrum árum hefðu verið „hlutir innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem ekki voru í lagi og þá braut mikið af þingmönnum," en hann hefði minna fundið fyrir því upp á síðkastið.

Hann kallaði eftir heildstæðu heilbrigðiskerfi þar sem þarfir almennings væru hafðar að leiðarljósi. Ekki væri hægt að borga út eftir því sem sérfræðilæknarnir heimtuðu.

Kristján lýsti einnig áhyggjum sínum af „nýjum einkavæðingarhugmyndum" heilbrigðisráðherra og sagði verið að „afhenda einkaaðilum fólk án þess að hemja möguleika þeirra til að rukka."

Hann sagði ráðherrann einnig sleppa því að nefna heilbrigðisstöðvar þar sem rekstur gengi vel en héldi sig við vandann til að ýta undir einkavæðinguna.

Brýtur ráðuneytið á sveitarfélögum

Þá ræddi Kristján málefni Sundabúðar á Vopnafirði en sveitarfélagið tók fyrir rúmu ári yfir rekstur hjúkrunarheimilisins. Þar hefur hreppsnefndin síðar farið fram á fjárstuðning frá ríkinu til að standa við fyrirheit ríkisins um jafnlaunaátak en ekki fengið þar sem ríkið lítur svo á að um verktakasamning sé að ræða.

„Það er skýlaust brot frá heilbrigðisráðuneytinu ef þeir láta sveitarfélög í verktöku ekki hafa viðbótargreiðslu," sagði Kristján um málið.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.