Kristján Möller: Samstaða heimamanna forsenda jarðganga

samfylking klm apa seydis 03092014 0006 webKristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, segir einarða samstöðu heimamanna lykilforsendu þess að jarðgöng komi. Það sé reynsla hans af baráttu Siglfirðinga fyrir göngum.

„Á Siglufirði tala menn um fyrir og eftir síld og fyrir og eftir göng," sagði Kristján, sem um tíma var forseti bæjarstjórnar á Siglufirði, á opnum fundi Samfylkingarinnar á Seyðisfirði í gærkvöldi.

Fé var í sumar veitt til að bora rannsóknaholu á Fjarðarheiði. Þrátt fyrir að borinn hafi ekki komist jafn neðarlega og ætlað var skilaði verkið samt gagnlegum upplýsingum.

Frekari rannsóknir eru dýrari og í þær segir Kristján að ekki verði ráðist nema menn séu „100% sáttir um hvaða leið á að fara. Það heyrist aðeins frá ykkur og annars staðar hvort réttara væri að fara til Mjóafjarðar og síðan Norðfjarðar."

Kristján hvatti Seyðfirðinga til að boða til borgarafundar þar sem samþykkt yrði ályktun í hvaða átt skyldi stefna. Slíkt hefðu Siglfirðingar gert við Héðinsfjarðargöng og skilað góðum árangri.

Undir þetta tók Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem einnig var frummælandi á fundinum í gær. „Það versta sem gerist fyrir þingmenn er að heyra misvísandi skilaboð á mismunandi fundum."

Hann sagði það ekki erfitt fyrir sig sem þingmann úr Kraganum að styðja hugmyndir um jarðgöng á landsbyggðinni.

„Ég er fæddur í sveit og hef þangað sterkar taugar. Ég hef alltaf stutt hugmyndir um jarðgöng.

Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur og það er ekki hægt að vera jafnaðarmaður án þess að aðhyllast jafnræði í byggð og styðja við fjölbreytta búsetu í landinu."

Kristján sagði Dýrafjarðargöng væntanlega næst á dagskrá en hvatti Seyðfirðinga til að halda áfram baráttu sinni. Framkvæmdir standa nú yfir við Norðfjarðargöng sem eiga að vera tilbúin árið 2017 sem þýðir að hætt verður að sprengja þar ári fyrr.

„Ég tel að það sé hægt að taka ákvörðun um Seyðisfjarðargöng nú því frá henni líða 2-3 ár þar til hægt er að hefja framkvæmdir."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.