Útgerð dæmd til að greiða sjómanni laun í veikindafríi: Taldist ekki hafa leynt upplýsingum um heilsufar

heradsdomur austurlands hamar 0010 webHéraðsdómur Austurlands dæmdi nýverið smábátaútgerð til að greiða sjómanni þriggja mánaða laun, alls ríflega 1,8 milljónir króna, í vangoldin laun í veikindafríi. Útgerðin hélt því fram að sjómaðurinn hefði leynt mikilvægum upplýsingum um heilsufar sitt.

Maðurinn var reglulega til sjós hjá útgerðinni árin 2008-2010 en fór í land vegna bakvandamáls í byrjun árs 2011. Hann var í fríi í hálft ár en snéri aftur á sjó um haustið.

Hann kenndi sér aftur meins í baki í lok október og varð í kjölfarið að fara í land. Hann gekkst loks undir aðgerð vegna brjóskloss í desember 2011.

Útgerðin neitaði að greiða honum í laun fyrir nóvember og desember 2011 og janúar 2012 á þeim forsendum að maðurinn hafði brotið gegn ákvæðum sjómannalaga með því að leyna mikilvægum upplýsingum um heilsufar sitt, það er um langvarandi bakmeiðsli, við ráðninguna.

Því mótmælti maðurinn og sagði að skipstjórar útgerðarinnar hefðu vitað af vandamálunum en boðið honum skipsrúm um sumarið. Þetta staðfestu skipstjórarnir og annar þeirra bætti við fyrir dómi að hver sá sem hefði séð sjómanninn vorið 2011 hefði vitað hið sama.

Þeir sögðu manninn ekki hafa kennt sér meins yfir sumarið og veikindin borið brátt að um haustið.

Af hálfu útgerðarinnar var því haldið fram að þegar í mars hefði verið ljóst að sjómaðurinn þyrfti í aðgerð út af brjósklosinu. Læknar hans báru á móti því og sögðu að þótt vitað hefði verið af brjósklosinu og honum ráðlagt að hlífa sér við erfiði hefði verið reynt að meðhöndla vandamálið með öðrum leiðum.

Aðgerðina hefðu þeir forðast í lengstu lög og ákvörðun um hana verið tekin með skömmum fyrirvara eftir að honum versnaði um haustið.

Dómurinn hafnaði því kröfu útgerðarinnar um sýknu og dæmdi hana til að greiða sjómanninum ríflega 1,8 milljónir króna, auk dráttarvaxta og málskostnað upp á 950.000 krónur.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.