Mjóeyri: Þrjú ný hús sem styrkja eininguna

saevar mjoeyri nyhus juni14Ferðaþjónustan Mjóeyri tók nýverið í notkun þrjú ný gistihús fyrir ferðamenn. Framkvæmdastjórinn segir tilkomu þeirra styrkja rekstrareininguna sem býður nú upp á yfir sjötíu gistipláss.

„Við höfum alltaf verið að reyna að stækka þessa einingu sem við byrjuðum á fyrir tíu árum. Það hefur alltaf verið að aukast hjá okkur og það var orðið fullt þannig við þurftum að bæta við," segir Sævar Guðjónsson sem rekur ferðaþjónustuna ásamt konu sinni, Berglindi Ingvarsdóttur.

Þau byrjuðu upphaflega með fjögur herbergi í gamla bænum en árin 2006 og 2007 bættust við fimm sumarhús og baðhús með heitum potti. Að auki hafa þau leigt gistiheimili á Eskifirði með ellefu tveggja manna herbergjum.

Hvert hús er 25 fermetrar að stærð með svefnlofti og er hugsað fyrir „áhöfn af bílaleigubíl." „Fólk spyr alltaf fyrst um húsin sem hafa verið okkar sérstaða. Við höfum reynt að markaðssetja okkur fyrir bílaleigufólk frekar en rútuhópa. Tilkoma nýju húsanna rennir enn sterkari stoðum undir veitingastaðinn í Randulffs-sjóhúsi því fólk héðan sækir hann."

Framkvæmdir við nýju húsin gengu hratt fyrir sig því Sævar segir hugmyndina hafa komist á flug fyrir jól, lokið var við að teikna þau í janúar og fyrsta húsið komið á svæðið rétt fyrir páska. Þau voru smíðuð hjá HT húsum á Egilsstöðum og flutt á staðinn í heilu lagi. Það síðasta kom fyrir sjómannadagshelgina og þau voru þá strax uppbókuð. „Þau eru ekki fullbókuð í allt sumar en það eru alltaf einhverjir á ferðinni sem þurfa gistingu," segir Sævar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.