Lagarfljótið rennur um nýjan ós

lagarfljot os juni14 JonasHafthorNýr ós Lagarfljóts var opnaður á ný á sunnudag en tilraunir til að beina fljótinu um hann í janúar mistókust. Reynt er að beina ósnum til austurs til að varna því að jökulvatn berist upp í veiðiár í norðanverðum Héraðsflóa.

„Þetta lítur nokkuð vel út. Ósinn er orðinn 150-200 metra breiður og Lagarfljótið er allt í honum," sagði Helgi Jóhannesson, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun þegar Austurfrétt náði tali af honum úti á Héraðssandi í dag.

Ósinn hefur færst norður á bóginn síðustu ár, einkum eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar og í leysingum á vorin hefur jökulvatn borist upp í nálægar veiðiár, þar á meðal Fögruhlíðará.

Í janúar var gerð tilraun til að færa ósinn til austurs á ný en hann lokaðist fljótt aftur. Helgi segir að ekki hafi staðið til að gera aðra tilraun nú af ótta við að trufla göngu lax en menn hafi farið að skoða málið eftir að óskir þess efnis bárust frá landeigendum.

Tilskilinna leyfa var aflað frá Fiskistofu, Veiðimálastofnun og landeigendum og ósinn frá í vetur opnaður á ný eftir hádegi á sunnudag.

„Að vissu leyti er auðveldara að grafa ósinn í svona miklu vatni og þetta var í raun minni aðgerð heldur en í vetur," segir Helgi.

Í samtali við Austurfrétt sagði Georg Þór Pálsson, stöðvarstjóri Fljótsdalsstöðvar, að menn teldu að ósinn myndi endast lengur nú en í vetur, að minnsta kosti í einhverja mánuði. Um hann rennur ekki bara fljótið heldur líka hluti Jökulsár á Dal.

Lagarfljót fellur til sjávar um nýja ósinn fyrir miðri mynd. Mynd: Jónas Hafþór Jónsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.