200 milljóna skuld skorin af HSA

Ráðherra heilbrigðismála hefur samþykkt sérstaka fjárveitingu til Heilbrigðisstofnunar Austurlands til lækka gamlar skuldir stofnunarinnar. Uppsögn stofnunarinnar á samningum við sérfræðilækna var dregin til baka eftir íhlutun ráðuneytisins.


HSA ákvað í lok sumars að hætta með heimsóknir fjögurra sérfræðinga sem reglulega hafa komið austur vegna peningaskorts. Ákvörðunin kom nokkuð á óvart og greip ráðherra í taumana.

„Það kom mér verulega á óvart að heyra að HSA hefði sagt upp samningunum þrátt fyrir langa hefð. Ég óskaði eftir að ákvörðunin yrði dregin til baka og það var vel brugðist við,“ sagði Kristján Þór Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, á þingi SSA sem haldið var á Seyðisfirði fyrr í mánuðinum.

Fjárhagur stofnunarinnar hefur löngum verið knappur og hafa stjórnendur hennar sagt uppsafnaðan rekstrarhalla stafa af miklum útgjöldum á meðan stóriðjuuppbyggingu eystra stóð. Álagið jókst þá verulega vegna aukins fólksfjölda en ekki komu til fjárveitingar á móti.

Þeir höfðu óskað eftir að ráðuneytið hlypi undir bagga en við því varð ekki orðið fyrr en stofnunin kæmi út réttu megin við núllið að loknu heilu ári. Það náðist í fyrra og á lokafjárlögum ársins 2015, sem nýlega voru samþykkt á Alþingi, var skuldin lækkuð um rúmar 200 milljónir.

Kristján Þór sagði núverandi stjórnendur HSA hafa staðið sig vel og sagði að í ljósri góðar stöðu hefði verið ákveðið að verða við óskum framkvæmdastjórnar um að styrkja sjúkraflutninga og heimahjúkrun á Borgarfirði, Seyðisfirði og Djúpavogi auk þess að veita fé til tækjakaupa. „Þetta kemur HSA á þokkalegan grunn til að mæta komandi áskorunum.“

Kristján sagði ýmislegt hafa áunnist í heilbrigðismálum á því kjörtímabili sem væri að ljúka. Lögð hefði verið fram aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum og lýðheilsustefna. Hvað varðaði Austurlands sérstaklega hefði rekstrargrunnur HSA verið styrktur um 30% og grettistaki verið lyft með nýjum hjúkrunarheimilum á Eskifirði og Egilsstöðum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.