Kaup Síldarvinnslunnar á Berg-Huginn ógilt: Dómarinn taldi lítið hald í rökum SVN

svn logoHéraðsdómur Reykjavíkur ógilti í gær kaup Síldarvinnslunnar á útgerðarfélaginu Berg-Huginn í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjabær höfðaði mál og taldi sig eiga forkaupsrétt á félaginu. Dómari taldi þau rök að ekki væri verið að kaupa fiskiskip heldur hlutabréf í útgerðarfélagi haldlítil.

Síldarvinnslan keypti öll hlutabréf í Berg-Huginn, útgerðarfélagi Magnúsar Kristinssonar og fjölskyldu, í lok ágúst 2012. Bréfin voru keypt af félagi í hans eigu, Q44 ehf. Bréf í Q44 höfðu áður skipt um hendur en Magnús hafði farið í gegnum skuldauppgjör við Landsbankann.

Samkvæmt yfirlýsingu var gert ráð fyrir að Bergur-Huginn yrði áfram í Vestmannaeyjum og gerði þaðan út skipin Bergey og Vestmannaey. Við kaupin jukust aflaheimildir Síldarvinnslunnar í bolfiski.

Reykjavíkurborg frekar en Vestmannaeyjabær

Vestmannaeyjabær höfðaði málið með vísan um lög um stjórn fiskveiða þar sem segir að ef selja eigi fiskiskip, sem hefur leyfi til veiða í atvinnuskyni, á milli sveitarfélaga eigi að bjóða viðkomandi sveitarstjórn forkaupsrétt. Nýti sveitarfélagið hann á það að bjóða hluti í skipinu til sölu til þeirra sem stunda útgerð þar.

Q44 og Síldarvinnslan vildu að málinu yrði vísað frá þar sem Vestmannaeyjabær væri ekki málsaðili. Þar sem Q44 væri skráð í Reykjavík og væri seljandi að hlutabréfunum ætti samkvæmt túlkuninni að bjóða Reykjavíkurborg bréfin til kaups. Þá héldu þau því einnig fram að ákvæðið ætti aðeins við sölu fiskiskipa en ekki á hlutabréfum eða aflaheimildum.

Því hafnaði dómurinn alfarið. Í niðurstöðu er bent á að tilgangur Q44 sé verðbréfaviðskipti og af tilkynningunni megi ekki ráða annað en óljós skil séu á milli þess, Magnúsar Kristinssonar og Bergs-Hugins. Ekkert væri til skráð um Q44 þannig að félagið gæti flokkast sem útgerð. Þótt viðskiptin væru í sjálfu sér með hlutafé væri ekki komið út fyrir gildissvið fiskveiðistjórnunarlaganna.

Viðskiptasamningar til verndar sértækum hagsmunum

Þvert á móti er í dóminum gagnrýnt að með viðskiptasamningum, líkt og Q44 og Síldarvinnslan gerðu með sér, sé verið að reyna að „sniðgagna ákvæði settra laga, sértækum hagsmunum til framdráttar en gegn almennum hagsmunum."

Þá var því haldið fram að eignarhald Bergs-Hugins hefði löngu áður færst til Reykjavíkur þar sem Landsbankinn, sem er þar með höfuðstöðvar, hefði verið eigandi að Q44. Dómarinn taldi ekki rétt að setja ákveðið tímamark á gjörningana eða slíta kaupsamninginn úr heildarsamhengi.

Dómurinn gefur ekki mikið fyrir það ákvæði í samningnum að Bergur-Huginn yrði áfram með heimilisfesti í Vestmannaeyjum og skipin tilheyri félaginu. Þar með sé ekki verið að flytja þau og þeirra aflaheimildir frá Vestmannaeyjum.

Þetta kallar dómurinn „rökvillu" og segir að Síldarvinnslunni og Q44 sé „ekki hald í slíkri viðbáru." Hann bendir einnig á að ef kaupsamningurinn standi óhaggaður geti Síldarvinnslan „hvenær sem er, sem eigandi allra hluta í Bergi-Hugin ehf. flutt útgerð viðkomandi skipa annað, t.d. í nafni hagræðingar."

Kerfinu ætlað að vernda byggðir?

Dómurinn telur að ákvæðinu í fiskveiðistjórnunarkerfinu sé ætlað að vernda byggðahagmuni og fellst því ekki að forkaupsréttarákveðið feli í sér ólögmætar viðskiptatálmanir en stefndu héldu því fram að með kröfunni um forkaupsréttinn væri gengið gegn samningsfrelsi.

Af hálfu Q44 og Síldarvinnslunnar var því haldið á lofti að tilgangur fiskveiðistjórnunarkerfisins væri að auka hagkvæmni í greininni. Ef löggjafinn hefði viljað þá hefði verið hægt að bæta við ákvæðið þannig að í því væri einnig talað um hlutafé og aflaheimildir en ekki bara fiskiskip.

Þau héldu því fram að ef túlkunin væri þetta víð þá væri hlutafé sjávarútvegsfyrirtækja vart tækt í kauphöll auk þess sem það hefði áhrif á lánsmöguleika og gengi gegn venju.

Ekki unnt að bera slíkan málflutning á borð fyrir dómstólum

Þá var einnig bent á að ef bærinn gengi inn í kaupin þyrfti að bjóða þeim útgerðaraðilum sem starfi í Vestmannaeyjum að kaupa skipin. Þeirra á meðal væri Bergur-Huginn og slík hringekja gengi ekki. Þeirri röksemdafærslu hafnaði dómurinn.

„Vestmannaeyjar hafa frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar verið ein helsta verstöð landsins. Þrátt fyrir þá samþjöppun sem orðin er hérlendis á sviði útgerðar – og mál þetta ber að nokkru leyti vitni um – er fákeppnin ekki orðin slík að unnt sé að bera á borð við málflutning fyrir dómstólum landsins að vart sé nokkrum öðrum útgerðaraðilum til að dreifa í Vestmannaeyjabæ sem keypt gætu skipin."

Kaupsamningurinn ekki lagður fram

Kaupsamningurinn var ekki lagður fram fyrir dómi þrátt fyrir beiðni Vestmannaeyjabæjar þar um. Efni samningsins var því túlkaður sveitarfélaginu í vil

Úrskurður dómsins var því að ógilda kaupin. Síldarvinnslan og Q44 eiga að greiða Vestmannaeyjabæ þrjár milljónir króna í málskostnað.

Í tilkynningu sem bæjarstjóri Vestmannaeyja sendi frá sér í gær er dómurinn sagður „áfangasigur í baráttu íbúa sjávarútvegssveitarfélaga fyrir auknu atvinnuöryggi."

Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hefur ekki svarað beiðnum Austurfréttar um viðbrögð við dóminum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.