Áhrif menntunar á byggðaþróun og sjálfbærni

flugfelagsfundur 07022014 0031 webÁrsfundur Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi verður haldinn þriðjudaginn 29. apríl nk. kl. 14.30 – 18.30 á Hótel Héraði, Egilsstöðum. Í ár verður sjónum beint sérstaklega að menntamálum.

Verkefnið hefur verið starfrækt að frumkvæði Alcoa og Landsvirkjunar frá árinu 2004 í þeim tilgangi að fylgjast með áhrifum virkjunar og álversins á Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Í upphafi skilgreindi samráðshópur skipaður fulltrúum samfélagsins hvaða málefni væru mikilvægust út frá áhyggjum og væntingum fólks í tengslum við framkvæmdir og mótaði út frá því tillögur að vísum. Vísarnir eru 45 og mælikvarðarnir 78 og eru þeir flokkaðir í samfélagsvísa, umhverfisvísa og efnahagsvísa.

Sem fyrr segir verður sjónum beint sérstaklega að menntamálum í ár. Þóroddur Helgason fræðslustjóri Fjarðabyggðar ræðir um mælingar í og á starfi grunnskólans og Bergþóra Hlín Arnórsdóttir, fulltrúi símenntunar hjá Austurbrú, segir frá símenntun á Austurlandi og háskólanemum sem stunda fjarnám á Austurlandi.

Þá mun Anna Guðrún Edvardsdóttir doktorsnemi fjalla um áhrif þekkingarsamfélagsins á byggðaþróun og sjálfbærni samfélaga á landsbyggðinni. Í erindi sínu leitast Anna Guðrún við að tengja umfjöllunina annars vegar við byggðaþróun þar sem áherslan er á að uppbyggingin leiði af sér fólksfjölgun og fjölgun starfa fyrir háskólamenntað fólk og hins vegar við orðræðuna um sjálfbærni sem gengur út á að við alla ákvarðanatöku sveitarfélaga eða annarra aðila sé tekið mið af efnahags-, umhverfis-, félags- og menningarlegum þáttum.

Hópavinna fær talsvert rými á fundinum og þar verður unnið með viðfangsefni sem tengjast menntamálum. Einnig munu sérfræðingar frá Alcoa-Fjarðaáli, Landsvirkjun og Austurbrú fara yfir helstu niðurstöður ársins 2013.

Ársfundir sjálfbærniverkefnisins eru haldnir eigi síðar en í annarri viku eftir páska ár hvert og er megintilgangur þeirra að fara yfir niðurstöður vöktunar undangengins árs. Þeir eru opnir öllum og ástæða til hvetja áhugasama til að mæta og fræðast um framvindu og niðurstöður.

Fundarstjóri verður Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs. Dagskrá er að finna á vef verkefnisins, sjalfbaerni.is

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.