Allar björgunarsveitir uppteknar: Íhuguðu að kalla Reyðfirðinga út til aðstoðar á Fjarðarheiði

brimrun4 wbAustfirskar björgunarsveitir höfðu í næg horn að líta seinni partinn í gær með útköllum upp á Vatnajökul og austfirskar heiðar til aðstoðar ferðamönnum. Á tímabili leit út fyrir að kalla þyrfti út björgunarsveit frá Reyðarfirði til að hjálpa ferðalöngum á Fjarðarheiði.

Björgunarsveitirnar voru fyrst ræstar út um klukkan fimm í gær en Eining frá Breiðdalsvík, Ísólfur frá Seyðisfirði og sveitir af Héraði og frá Höfn voru kallaðar út til að flytja veikan ferðalang ofan af Vatnajökli.

Þegar Ísólfsmenn voru á leið yfir Fjarðarheiði óku þeir fram á ökumenn sem voru þar í vandræðum vegna ófærðar en hratt og vel gekk að hjálpa þeim yfir.

Um kvöldmatarleytið bárust síðan beiðnir frá ökumönnum í vanda á Háreksstaðaleið. Björgunarsveitin Vopni frá Vopnafirði og Jökull frá Jökuldal fóru alla leið norður á Biskupsháls til aðstoðar.

Daði Benediktsson í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi, segir að aðgerðin hafi gengið seint þar sem mjög lélegt skyggni hafi verið. Sérstök áhersla var lögð á að komast til fólks í bíl sem hafði bilað og gat ekki verið í gangi en því fólki var orðið ansi kalt.

Hjálpa þurfti fjórum bílum þar en björgunarsveitarmenn komu aftur þegar klukkan var langt gengin í tvö í nótt.

Um klukkan tíu barst útkall frá ökumönnum sem lentir voru í vanda á Fjarðarheiði en þeir höfðu reynt að komast yfir heiðina þrátt fyrir að hún væri merkt ófær. Þar sem allar sveitir í nágrenninu voru uppteknar var skoðað að ræsa út Ársól frá Reyðarfirði en málið leystist áður en til þess kom.

Um miðnætti barst hjálparbeiðni þar sem tveir bílar á leið yfir Oddsskarð sátu fastir. Björgunarsveitin Brimrún fór í verkið sem gekk hratt og vel.

Veika ferðalangnum var komið á sjúkrahús í Neskaupstað um klukkan tvö í nótt. Læknir var með björgunarfólki og tók á móti honum á Fljótsdalsheiði og fylgdi honum niður í Egilsstaði þaðan sem hann var fluttur með sjúkrabíl til Neskaupstaðar með aðstoð Vegagerðarinnar yfir Oddsskarð. Síðustu björgunarsveitarmennirnir úr því útkalli skiluðu sér til síns heima um klukkan hálf fjögur í nótt.

Mynd: Heiðar Högni Gunnarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar