Andrés Skúla: Stjórnvöld geta ekki verið áhorfendur að málum af þessari stærð

andres skulason cropOddviti Djúpavogshrepps kallar eftir viðbrögðum stjórnvalda vegna þeirrar stöðu sem uppi er vegna áforma Vísis hf. um að flytja alla vinnslu og aflaheimildir frá Djúpavogi til Grindavíkur. Stíf fundarhöld hafa verið undanfarna daga um stöðuna sem upp er komin á Djúpavogi.

„Svona stórtæk áform um inngrip og tilflutninga í atvinnulífinu hér á svæðinu í annað sinn á örfáum árum hljóta að kalla á viðbrögð þingmanna kjördæmisins ef einhver dugur er í þeim. Skemmst er að minnast lokunar á uppsjávarvinnslu á Djúpavogi fyrir aðeins 9 árum, þá reyndi Steingrímur J Sigfússon þingmaður endurtekið að kalla eftir aðgerðum af hálfu stjórnvalda án árangurs. Nú hljóta þingmenn hinsvegar að horfast í augu við vandann," segir Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps.

Rúm vika er síðan sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hf. tilkynnti um áform um að hætta vinnslu á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri og flytja til Grindavíkur. Um fimmtíu störf eru í húfi á hverjum stað. Um leið tilkynntu Vísismenn hins vegar að þeir væru tilbúnir að aðstoða við framgang annarra atvinnutækifæra á hverjum stað sem er þó enn óútfært.

Tíma tekur að vinna úr stöðunni

Andrés og sveitarstjórinn, Gauti Jóhannesson, vörðu lunganum úr síðustu viku á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir funduðu með þingmönnum kjördæmisins, eigendum Vísis, sjávarútvegsráðherra auk fulltrúa stofnana og fyrirtækja.

Að lokinni ferðinni var sent fréttabréf til íbúa Djúpavogshrepps um að „þrátt fyrir stíf fundarhöld" þar sem kallað hefði verið eftir „skýrum svörum" liggi fyrir að það geti tekið „einhvern tíma" að vinna úr stöðunni.

Þar segir að bæði stjórnarþingmenn kjördæmisins og sjávarútvegsráðherrann hafi gefið fyrirheit um að málið yrði tekið fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar. Í samtali við Austurfrétt staðfesti Andrés að allir þingmenn kjördæmisins, nema forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefðu setið hið minnsta hluta fundarins.

Forsvarsmenn Vísis hafa sagt að endanleg ákvörðun hafi ekki enn verið tekin en boðað að hún verði tekin fyrir lok mánaðarins. Tilkynnt hefur verið að Vísir muni taka að sér slátrun og vinnslu fyrir Fiskeldi Austfjarða, sem er með eldi í Berufirði. Vinna við það á að hefjast 1. ágúst og eiga 20-25 störf að haldast eftir þar.

Í tilkynningu sveitarstjórnar Djúpavogshrepps kemur fram að forsvarsmenn Fiskeldisins hafi lýst yfir áhuga sínum á að hraða uppbyggingu eldisins og að auki hafi fulltrúar Sjávarklasans, sem er samstarfsvettvangur fyrirtækja í haftengdri starfsemi, lýst yfir vilja til að vinna með Djúpavogshreppi.

Andrés segir of snemmt að fara út í hvaða hugmyndir séu á borðinu en enn séu „opnir gluggar" og menn gangi „bjartsýnir til verks. Við höfum áður mætt mótlæti og ætlum að snúa stöðunni okkur í vil sem fyrr.

Stjórnvöld verða að stíga fram af ábyrgð

Hann kallar hins vegar eftir aðgerðum stjórnvalda. „Það gengur ekki að ríkisstjórnin haldi að sér höndum með lokuð augun á meðan heimamenn reyna sjálfir að ráða fram úr vandanum búandi við fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem fáar eða engar varnir eru að finna fyrir byggðirnar þegar á reynir.

Eins og staðan er verða stjórnvöld því að koma að borðinu og stíga fram af ábyrgð, þau geta ekki verið áhorfendur að málum af þessari stærðargráðu."

Andrés segir að mönnum sé töluvert tíðrætt um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í sjávarútvegi þegar svona stór mál komu upp og gott og vel sé að halda þeirri umræðu til staðar.

„Fyrir mér snýst þetta hinsvegar og eiginlega enn meir um þá samfélagslegu ábyrgð sem að stjórnvöld eiga að bera í þessum efnum. Þau hafa mótað lögin og reglurnar í þessum leik sem útgerðin spilar og það þýðir því ekkert fyrir þau að hlaupast undan króanum sem þau sjálf hafa búið til í þessum efnum.
Útgerðin spilar því bara eftir reglunum sem að stjórnvöld hafa sett þeim að því best verður séð."

Hvernig er byggðamarkmiðinu í lögum um stjórn fiskveiða framfylgt?

Andrés segir það líka standa upp á stjórnvöld að svara undir þessum kringumstæðum hvernig þau vilji túlka 1 gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem talað er um að markmið laganna sé meðal annars að „tryggja og treysta atvinnu og byggð í landinu."

„Það sem vantar í lögin um stjórn fiskveiða er einmitt að setja þar inn lagabálk sem að treystir stöðu byggðanna veitir þeim einhvern rétt þar sem þeim er tryggður einhver lágmarksaðgangur eða hlutdeild að þessari sameiginlegu auðlind sem við köllum svo gjarnan," segir Andrés.

Fundað verður áfram í vikunni, bæði syðra og eystra og þá er von á þingmönnum kjördæmisins síðar í mánuðinum til fundar við fulltrúa Djúpavogshrepps og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi vegna stöðunnar.

Hjá forsætisráðuneytinu fengust í gær þær upplýsingar að Sigmundur Davíð hefði ekki komist á fundinn í hádeginu á fimmtudag vegna fyrirfram ákveðinnar dagskrár. Hann muni hins vegar reyna að taka þátt í fundi þingmanna kjördæmisins með fulltrúum SSA, „að því gefnu að embættisskyldur hefti ekki för."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.