Skapandi greinar ein af stoðum Austurlands

skapandi greinar austurbru 0006 webÞað var skýr niðurstaða vinnustofu um stefnumótun skapandi greina á Austurlandi að þessi atvinnugrein sé og eigi að vera ein af stoðum landshlutans. Ákveðið forskot hefur skapast þar vegna MAKE by Þorpið og Evrópuverkefnisins „Creative communities" sem brýnt er að nýta.

Tæplega 40 manns tóku þátt í vinnustofunni þrátt fyrir að veður og færð settu strik í reikninginn. Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri Reykjavík Runway og fyrrverandi framkvæmdastjóri Hugmyndahúss háskólanna leiddi fundinn sem hafði það verkefni að leggja drög að stefnu til ársins 2020 fyrir skapandi greinar á Austurlandi auk þess að skoða hvernig verkfærið MAKE by Þorpið gæti nýst í skapandi greinum til framtíðar.

Á Austurlandi hefur verið rekið öflugt menningarstarf- og stefna síðastliðin tólf ár. Kraftmikið starf Seyðfirðinga hefur rutt brautina og aukið áhuga á skapandi greinum í fjórðungnum auk þess að vekja athygli á Seyðisfirði og Austurlandi sem skapandi samfélagi.

Með því starfi og tengslaneti innan fjórðungs sem utan og fyrir tilstuðlan alþjóðlegs samstarfs MAKE by Þorpið og „Creative Communities", hefur Austurland í höndum sér fjöregg sem getur leitt til umtalsverðar atvinnusköpunar í greininni, bæði í huglægum og hlutlægum skilningi. Brýnt er að Austurland nýti sér það forskot sem landshlutinn hefur á þessu sviði.

Íslensk stjórnvöld samþykktu nýverið nýja hönnunarstefnu sem nær til ársins 2018, en þar er meðal annars stefnt að því að auka vægi hönnunar í íslensku atvinnulífi með það að sjónarmiði að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og auka verðmætasköpun.

Hönnunarstefnan byggist á þremur grunnstoðum, en þær eru aukin menntun og þekking, starfs- og stuðningsumhverfi hönnuða og vitundarvakning. Gríðarleg tækifæri eru t.a.m. í menntamálum og markaðssetningu Austurlands sem áfangastaðar fyrir skapandi fólk.

Í Evrópu er sífellt lögð meiri áhersla á skapandi greinar sem atvinnugrein til framtíðar. Ef halda á áfram að byggja upp þessa atvinnugrein á Austurlandi er brýnt að kortleggja bæði efnisleg og óefnisleg hráefni og auðlindir, styrkja innviðina og færa upp á næsta stig, til að mynda með öflugu rannsóknasetri og miðstöð á sviði hönnunar og listhandverks, sem bættist þá við í flóru þeirra menningarmiðstöðva sem fyrir eru á Austurlandi í myndlist, tónlist og sviðslistum.

Mikið var rætt um mikilvægi grasrótarinnar sem hefur stofnað með sér samtök, „SAMfélagið", og að frumkvæðið og hugmyndirnar komi þaðan en hún njóti jafnframt öflugrar stoðþjónustu frá aðilum á borð við Austurbrú og stuðnings frá íbúum Austurlands.
Lára Vilbergsdóttir, verkefnisstjóri skapandi greina hjá Austurbrú sagði vinnustofuna hafa verið einkar gagnlega.

„Næstu skref eru að vinna úr öllum þeim upplýsingum og tillögum sem þarna komu fram, að líkindum munum við efna til nokkurra vinnufunda í smærri hópum, áður en við leggjum fram í stefnu í skapandi greinum fyrir Austurland til ársins 2020. En það eru spennandi tímar framundan í þessum geira í þessum landshluta."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.