Markmiðið að dreginn verði lærdómur af þessu máli: Ekki fleiri gróðursnyrtingar í bili

laufas1 haustmynd webTil stendur að fara yfir verklag við snyrtingar gróðurs sem nær út fyrir lóðamörk hjá sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Garðeigendur við Laufás 1 á Egilsstöðum segjast ganga frá sáttir frá borði eftir fund með bæjaryfirvöldum í gær.

„Þetta var mjög gagnlegur umræðufundur og það fóru allir algjörlega sáttir frá borði," segir Steinunn Ásmundsdóttir, sem býr á Laufási 1 á Egilsstöðum ásamt manni sínum, Þorsteini Inga Steinþórssyni.

Ófögur sjón blasti við þeim þegar þau komu aftur úr frí í síðustu viku þar sem starfsmenn sveitarfélagsins höfðu klippt af þeim gróðri sem stóð út fyrir lóðamörkin. Afleiðingar þess voru meðal annars þær að hálfrar aldar gamalt birkitré var eyðilagt.

„Eftir að okkur var runnin mesta reiðin var markmið okkar að þetta yrði nýtt til lærdóms og við höfum fengið vilyrði fyrir því. Eins fáum við viðgerðir á garðinum eftir því sem unnt er."

Af hálfu bæjarins sátu fundinn Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs og Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar.

Björn segir að allir hafi lært af fundinum í gær. „Við áttum ágætan fund í gær og það voru allir sammála að reyna að leggja eitthvað upp sem linað getur þessi sárindi því við smíðum ekki þessi tré aftur."

Hann vildi ekki tjá sig nákvæmlega í hverju það fælist. Á fundinum hefðu verið ræddar hugmyndir en fleiri kæmu að því að taka ákvarðanir um þær og vildi því ekki ræða þær efnislega. Aðspurður svaraði hann þó að þær snérust um annað en „greiðslubóta með peningum"

Í hlutverk umhverfis- og héraðsnefndar kemur að fara yfir verklag við snyrtingu gróður sem lær út fyrir lóðarmörk. „Ég ákveð ekkert einn en þetta tiltekna mál gefur ástæðu til að yfirfara viðmiðin."

Aðspurður segir Björn að ákvörðunin um að snyrta gróður garðeigenda hafi verið tekin fyrir nokkru síðan.

Strax í ágúst í fyrra hafi birst auglýsing þar sem óskað var eftir að garðeigendur tryggðu að gróður þeirra væri innan lóðamarka og að gripið yrði til aðgerða ef þeir yrðu ekki við því. Sú auglýsing hafi verið ítrekuð tvisvar í vetur.

Björn segir bæinnhafa fengið ábendingar um að aðgerða væri þörf, formlega frá réttindagæslumanni fatlaðra en einnig óformlega frá íbúum og þeim sem annist snjómokstur.

Hann bætir við að í byggingareglugerð standi skýrt að bærinn hafi rétt til að snyrta þann gróður sem fari út fyrir lóðamörk.

„Starfsmenn sveitarfélagsins höfðu bara ummæli um að framfylgja því sem auglýst var. Þetta tiltekna tilvik gefur ástæðu til að við förum og endurskoðum ferla og við höfum stöðvað frekari snyrtingar í bili."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.