Málþing um gæðamál: Mikilvægt að halda svona viðburð utan Reykjavíkur

gaedafundur 0004 webMálþing um aukna hæfni til starfa í atvinnulífinu og um gæðamál í framhaldsfræðslu var haldið á Egilsstöðum fyrir skemmstu. Um fimmtíu manns, sem komu víðsvegar að af landinu, sóttu málþingið og þótti takast vel til.

Fjöldi erinda voru haldin á málþinginu en fyrri hluti málþingsins fjallaði um aukna hæfni til starfa í atvinnulífinu og meðal erinda þar var umfjöllun um starfstengt nám hjá leikskólaliðum og félagsliðum og athyglisverð umfjöllun um átaksverkefnið Nám er vinnandi vegur.

„Það er mikilvægt að svona viðburðir séu stundum haldnir utan höfuðborgarsvæðisins," segir Bergþóra Arnórsdóttir, fulltrúi símenntunar hjá Austurbrú, en auk Austurbrúar stóðu þrjár símenntunarstöðvar að málþinginu í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þetta voru Þekkingarnet Þingeyinga, Farskólinn og Framvegis.

„Þarna komu fulltrúar margra minni stofnana alls staðar að af landinu og gafst okkur gott tækifæri til að bera saman bækur okkar," segir Bergþóra en málþingið er liður í Evrópuverkefni Mennta- og menningarmálaráðuneytisins – „Lifelong learning programme – Að styrkja fullorðinsfræðslu á Íslandi."

Seinni hluti málþingsins var helgaður umfjöllun um gæðamál í framhaldsfræðslu og gæðastjórnun í atvinnulífinu. Þar voru einnig flutt fjölmörg spennandi erindi, til dæmis flutti Agnes H. Gunnarsdóttir ABS sérfræðingur hjá Alcoa Fjarðaáli skemmtilegt erindi um gæðastýringu í atvinnulífinu og fjallaði sérstaklega um gæðastaðla sem Alcoa þarf að uppfylla.

Bergþór Þormóðsson fjallaði um úttektir á gæðakerfum og Guðfinna Harðardóttir um þróun gæðastarfs í framhaldsfræðslu en miklar breytingar hafa átt sér stað undanfarin ár sérstaklega hvað varðar skjalavörslu og upplýsingastreymi.

Bergþóra segir umræðuna um gæðamál framhaldsfræðslu gríðarlega mikilvæga. „Svo ég taki dæmi þá var mjög áhugavert fyrir okkur að hlusta á erindi Agnesar frá Fjarðaáli. Þar var gæðamálum í hinu stóra samhengi lýst. Þótt þau séu með margþættara gæðakerfi en við aðeins með eitt þá erum við í sjálfu sér alltaf að fást við sömu hlutina: Að verkferlar séu skýrir og að við séum sjálf okkur samkvæm í okkar starfi."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.